Kaffikall skrifar:
–
Þegar Starbucks byrjar hér á landi – ef marka má fréttir – þá verður rúm hálf öld liðin frá því að fyrsti Starbucks staðurinn opnaði í Seattle í Bandaríkjunum 1971. Fyrstu árin seldi Starbucks reyndar ekki kaffi, heldur kaffibaunir og tæki til að mala þær og hella uppá. En núna eru allir kaffidrykkir Starbucks seldir á fyrsta Starbucks staðnum á Pike’s Place markaðnum í Seattle og þar er löng biðröð alla daga. Fyrst og fremst eru það ferðamenn sem vilja „upplifa“ það að koma á fyrsta staðinn og taka sjálfur af sér. Upprunalega lógó staðarins hangir fyrir utan og fátt bendir til (annað en biðröðin) að þarna sé fyrsti anginn af kaffihúsakeðju með 35 þúsund staði um allan heim – og bráðum á Íslandi.
Án vafa verður röðin löng þegar fyrsti Starbucks staðurinn opnar hér á landi, ekki ósvipað og þegar Dunkin Donuts tók til starfa, eða McDonalds eða Burger King. Stóra spurningin er hvort Starbucks þrífst hér frekar en fyrrnefndar keðjur, sem allar hafa sagt skilið við Ísland. Ástæðan fyrir því hvað erlendu keðjurnar þrífast hér illa er sögð sú að reksturinn standi ekki undir greiðslunum til rétthafa vörumerkjanna. Nógu erfitt er víst að reka „venjulegt“ kaffihús á núlli þó ekki bætist við himinhá gjöld til alþjóðafyrirtækja. Svo er líka hitt, að kaffið á Starbucks þykir fremur þunnildislegt. Aftur á móti eru kaldir og sætir kaffidrykkir vinsælir hjá kaffihúsakeðjunni og aldrei að vita nema ríkir Íslendingar slái til og fái sér 1.500 krónu frappuchino til hátíðabrigða.