„Ég á mér þann draum að Laugarnestanginn allur verði friðaður,“ segir Þuríður Sigurðardóttir myndlistarkona, hestamaður og landsfræg dægurlagasöngkona um áratugaskeið. Þuríður er uppalin á bóndabæ sem stóð á hól á Laugarnestanga þar sem foreldrar hennar og systkini bjuggu fram yfir miðja síðustu öld. Og Þuríður vill ganga lengra:
„Sundin og eyjarnar sem þau prýða verði einnig friðuð; allt þetta undursamlega samspil í landslaginu og náttúrunni – svo börnin okkar og komandi kynslóðir fái notið og þegar ég er að tala um friðun á ég við friðun sem býður upp á eðlilega umgengni í landslaginu eins og það er. Laugarnesið ætti ekki að vera minjasafn um fortíðina heldur hluti af upplifun í daglegu lífi fólks sem vill „eiga heima í náttúrunni“.
Ég skora á borgarráð Reykjavíkur að draga til baka leyfi fyrir viðbótarlandfyllingu og koma þannig í veg fyrir óafturkræft umhverfisslys í náttúruperlunni Laugarnesi.“