Austurstræti verður göngugata í sumar og Pósthússtræti verður vistgata. Breytingin tekur gildi í kringum næstu mánaðamót, eða þegar nýjar merkingar verða komnar upp, og verður þetta fyrirkomulag í gildi til 1. október 2024. Enn fremur ná breytingarnar til Veltusunds og hluta Vallarstrætis og Hafnarstrætis.
Þetta var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í gærmorgun. Breytingarnar byggja á samþykkt ráðsins um undirbúning Kvosarinnar sem göngugötusvæðis frá 10. janúar síðastliðnum og eru hluti af því að koma í framkvæmd framtíðarsýn fyrir umferðarskipulag Kvosarinnar sem samþykkt var 2020.
Auðgar mannlíf og bætir aðgengi og öryggi
Markmið breytinganna er að stuðla að bættu aðgengi og öryggi gangandi vegfarenda, hreyfihamlaðra og þjónustuaðila ásamt því að auðga mannlíf og vöxt miðborgarinnar.
Göturnar sem verða göngugötur í þessum áfanga eru:
- Austurstræti frá Pósthússtræti að Ingólfstorgi
- Veltusund
- Vallarstræti vestan Veltusunds
Til viðbótar verða tvö bílastæði, eitt í Hafnarstræti og eitt í Pósthússtræti, merkt sem stæði fyrir hreyfihamlaða.
„Í öllum hverfum eru langtum fleiri jákvæð en neikvæð gagnvart göngugötum og þeim fjölgar sem telja að göngusvæðin megi vera stærri. Við hlustum á íbúa og tökum þessu sem hvatningu til þess að fjölga göngusvæðum í borginni og erum nú að stíga skref í þá átt,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.