Friðrik Indriðason blaðamaður og lífskúnstner hélt upp á 67 ára afmæli sitt á Mónakó Casino Club á Laugavegi skömmu eftir hádegi í gær. Þar með stimplaði afmælisbarnið sig inn sem eldri borgari og ánægður með óvæntan árangur.
Vel var veitt, smörrebröd að dönskum sið, snafsar, bjór og hvítt og rautt og allt kallaðist þetta vel á við laugardagshádegið sem leið fram hjá með stefnuna á síðdegið.
Friðrik er með gott auga fyrir tíðarandanum og les þjóðfélagið vel eins og hann á kyn til, sonur Indriða G. (79 af stöðinni) og bróðir Arnaldar metsöluhöfundar.
Mónakó Casino Club á Laugavegi var staðurinn til að vera á í hádeginu í gær. Gaman saman!