Fyrir um tveimur áratugum keyptum við fjölskyldan fína íbúð í Skaftahlíð. Þar ætluðum við að setjast að helst fyrir lífstíð. Þess vegna var miklu til kostað, allt tekið í gegn og málað ásamt ýmsu öðru,“ segir Sverrir Þórisson kennari.
„Sonur minn var langt kominn með MH og eignaðist þar vini og kunningja, eins og gengur. Einn vina hans sem ég hafði þá hitt tvisvar eða þrisvar, rak inn nefið þegar ég stóð með málningargræjurnar tilbúnar.
Hann las í leikinn og bauð mér umsvifalaust aðstoð. Það er ekki að orðlengja það að hann reyndist betri en enginn. Áður kom hann og bar píanó upp þröngan stiga og var þrekvirki. Í stað þess að fara í bæinn, fá sér bjór og kíkja á stelpurnar, þá eyddi þessi geðþekki ungi maður laugardeginum í málningarvinnu með manni sem hann þekkti varla nokkurn skapaðan hlut, með bros á vör.
–
Leið unga mannsins lá síðan í stjórnmálafræði og út í lífið sjálft. Það fór nú svo að hann kíkti á stelpurnar eins og vera ber.
Forsetaframbjóðandinn Halla Hrund Logadóttir er í dag eiginkona þessa eðal manns. – Ég hef fulla trú á þeim báðum til allra góðra verka.“