LÆKNIR MEÐ LANDRIS Í KVIÐNUM

0
Til að drífa þetta í gang fór ég að tala um Nýju Stjórnarskrána og var svæfingunni flýtt umsvifalaust.

„Á aðventunni fann ég fyrir landrisi vinstra megin í kviðnum,“ segir Lýður Árnason læknir og baráttumaður fyrir betra Íslandi:

„Taldi þetta þýðingarlaust en um áramót fór megn hundagöngunnar í glímu við þetta útstáelsi og ég varð að horfast í augu við þá staðreynd að læknir heimilisins dygði ekki á þetta mein. Arkaði því í Glæsibæ og blakaði þessu á vin minn sem ég treysti. Hann kvað upp þann dóm að um væri að ræða vestfirzkt kviðslit sem lét sér ekki segjast og því þurfti skurð. Og í gær rann upp sá stóri dagur. Í bítið var ég mættur í klínikina í Ármúla, ósofinn enda svæfing framundan og ágætt að nýta hana. Vel var tekið á móti mér og fyrr en varði var ég kominn upp á skurðarborðið. Til að drífa þetta í gang fór ég að tala um Nýju Stjórnarskrána og var svæfingunni flýtt umsvifalaust. Næstu hálftímana var landrisinu gert skil og ég rankaði við mér um hádegisbil. Bros og djúsglas vöktu mig enn frekar til lífsins og fyrr en varði var ég kominn út í vorsólina. Fann þar fyrir þakklæti og vonarneista. Þó vissulega megi margt bæta í íslenskri heilbrigðisþjónustu er vert að geta þess sem gott er.“

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here