Samskipti á samskiptamiðlum taka á sig ýmsar myndir og stundum alveg gagnvirkar eins og þegar Guðmundur Magnússon rithöfundur á blaðamaður minntist föður síns í gær:
„Pabbi, Magnús Þorsteinsson (1926-2001) hefði orðið 98 ára í dag. Dó aðeins 75 ára gamall úr krabbameini. Blessuð sé minning hans….Hann starfaði nær alla tíð á Heilsuverndarstöðinni gömlu við Barónsstíg, en var auk þess læknir við nokkra skóla borgarinnar. Hann langaði til að lesa bókmenntir, en það þótti óraunsætt. Afi vildi að hann yrði verslunarmaður. Þar var framabrautin greið. En læknisfræðin varð ofan á og í barnalækningar fór hann fyrir tilviljun eftir að styrkur bauðst til framhaldsnáms á því sviði í Münster í Þýskalandi 1955.“
Þetta vekur viðbrögð hjá Gumðundi Andra Thorssyni rithöfundi:
„Pabbi þinn bjargaði lífi mínu þegar ég var fimm ára og fékk heilahimnubólgu. Læknir hafði komið um morguninn og sagt mig vera með flensu. Mér hrakaði þegar leið á daginn og mamma náði ekki í neinn lækni fyrr en pabba þinn, sem kom með hraði og dreif mig beint á spítala þegar hann sá mig. Hann var og er í hávegum hafður í minni fjölskyldu.“