Tískan vor og sumar 2024
Barbiebleikt var litur ársins 2023 en fyrir árið 2024 er fjólublár arftaki þess bleika. Vogue hefur kynnt litasamsetningar sem setja svip sinn á tískuna núna og eru það þessar helstar.
(1) Brúnt og ,,navy“-blátt.
Þessir litir voru lengi vel ekki paraðir saman. Nú þykir þessi samsetning ofursvöl, glæsileg og fersk. Smart að vera í brúnum leður- eða rúskinnsjakka yfir blárri skyrtu eða peysu.
(2) Rautt og grátt
Rautt er áfram í uppáhaldi en í stað þess að blanda því við svart er grái liturinn notaður með rauðu.
(3) Grátt og skærgrænt
Hreinn grænn litur sem er staðsettur á milli þess bláa og gula á litrófinu er ferskur litur fyrir vorið og tónar vel með gráu.
(4) Rautt og khaki-grænt
Nú þegar árstíð ljósu rykfrakkana gengur í garð er flott að blanda saman khakilitnum við djúprauðan lit (sjá leðurfatnað á mynd).
(5) Fjólublátt og hermannagrænt
Hér er rúsínan í pylsuendanum, svalasta litasamsetningin núna er fjólublátt og hermannagrænt. Fjólublái liturinn er kominn í stað bleika litsins frá því í fyrra sem tískulitur ársins og með khakigrænu er hann geggjaður.