Sex ára gömul stúlka átti frænda sem sigldi um öll heimsins höf sem sjómaður. Einu sinni sem oftar var frændi staddur í hafnarborg í Þýskalandi og keypti þá dúkku handa litlu frænku sinni, dúkku sem gat talað, svona rafræn dúkka. Þetta var 1971.
Nú, 50 árum síðar, er dúkkan komin í Árbæjarsafnið og er þar til sýnis í kassanum sem hún var í þegar frændi kom færandi heim eftir útivistina – eins og ósnert.
Litla stúlkan er nú að verða sextug og allan tímann hefur hún geymt dúkkuna eins og sjáldur augna sinna. Börnin hennar fengu ekki að leika sér með hana og því síður barnabörnin. Hún þóttist vita að þá myndi dúkkan fljótt eyðileggjast. Sjálf hafði hún alltaf gengið frá henni í kassann sem hún kom í og falið vel.
Fyrir skemmst datt henni í hug að færa Árbæjarsafni dúkkuna til varðveislu, enda menningarverðmæti þar sem hún lá eins og ósnert í kassanum. Árbæjarsafnið þáði gjöfina og nú er dúkkan komin þangað og sómir sér vel innan um aðra gripi – í kassanum.
Árbæjarsafn er opið alla daga frá 13-17.