Maggi í Tjöruhúsinu á Ísafirði, einum þekktasta veitingastað á landinu og þó víðar væri leitað, er sjötugur í dag. Jóhann Hauksson fjölmiðlamaður, bróðir Magga, sendir honum fallega afmæliskveðju:
–
„Elsku besti bróðir minn, Magnús Hauksson, hefur sjö áratugi að baki frá og með deginum í dag. Móðir okkar heitin, Erla Jóhannsdóttir, á sama afmælisdag og hefði orðið 94 ára. Blessuð sé minning mömmu.
Maggi er sprækur, útsjónasamur, duglegur, greiðvikinn og gjafmildur mannvinur, sem hjálpað hefur mörgum til manns. Hann er pragmatískur (líka pólitískt) og fordómalaus.
Hann og Ragnheiður Halldórsdóttir, eiginkona hans, hafa brallað margt á lífsleiðinni. Fyrir utan það að hafa alið þrjú yndisleg börn, Hauk Sigurbjörn, Salóme Katrínu og Guðmund Björgvin (og sannarlega alið upp fleiri að einhverju leyti) eru þau líklega þekktust fyrir að hafa komið á fót veitingastaðnum Tjöruhúsinu á Ísafirði sem þau reka enn. Flestir vita að orðspor Tjöruhússins hefur borist langt út fyrir landsteinana og verið ferðaþjónustu á Vestfjörðum mikil lyftistöng undanfarna tvo áratugi eða svo.
Til hamingju með daginn kæri bróðir. Megi góð heilsa og hamingja fylgja þér hvert fótmál.“