„Þannig er að á Búllunni hefur i 20 ár verið í boði „tilboð aldarinnar“ sem er búlluborgari, franskar og gosdrykkur. Nú er ég með hugmynd sem ég kalla „hugmynd aldarinnar“, – fékk hana um daginn. Þetta tengist veru minni á Alþingi,“ segir Tommi á Búllunni einnig þekktur sem Tómas A. Tómasson alþingismaður:
–
„Eins og allir vita þá er skortur á hjúkrunarheimilum nánast allstaðar á landinu eftir því sem mér skilst. Þá eru um og yfir 100 manns á biðlista inni á Landsspítala sem bíða eftir plássi. Fyrir utan alla aðra sem eru að bíða eftir plássi.
–
„Þegar hótel Saga var til sölu þá vildi ég að því yrði breitt í hjúkrunarheimili, hugsa að flestir eldri borgarar hefðu þegið að búa a Sögu. Saga var gott 4 stjörnu hótel í fullum rekstri, um og yfir 200 herbegi og svítur. Með alls kyns fundarsölum og veizlusölum svo ég tali nú ekki um Súlnasalinn og Átthagasalinn sem flestir af minni kynslóð þekkja. Þetta var eins borðleggjandi og það gat verið. En Saga var tekin og breytt í íbúðir fyrir námsmenn sem vissulega þurfa á húsnæði að halda.
–
Það sem ég hefi verið að hugsa er eftirfarandi: Í Reykjavík eru nokkur stór hótel sem flest eru 4 stjörnu. Þessi hótel hafa allt sem þarf til að breyta þeim í hjúkrunarheimili. Ég hitti þá félaga Willum og Sigurð Inga í dag í þinginu og viðraði þessa hugmynd við þá. Fékk svo sem lítil viðbrögð. En ég segi, þó eitt svona hótel væri keypt á uppsprengdu verði og breitt í hjúkrunarheimili þá mundi það samt vera ódýrara en að byggja nýtt. Þetta væri hægt að gera á „no time“ eins og sagt er. Halló! Það sárvantar pláss!
–
Sé ekkert þessu til fyrirstöðu nema ákvörðunatöku þeirra sem ráða en það eru Willum og Sigurður Ingi. Spurningin er hvort þeir þori. Boltinn er hjá þeim.“