„Frá því ég man eftir mér hef ég notið þess að skapa og skiptir engu máli í hvaða formi það er,“ segir Ellý Q, Elínborg Halldórsdóttir, sem opnar þrettándu einasýningu sína í Listhúsi Ófeigs á Skólavörðustíg á laugardaginn. Sýningin ber nafnið Glitz og þar verða að mestu sýnd olíumálverk sem Ellý hefur unnið undanfarin ár:
–
„Ég fór inn í tónlistarsenuna um tvítugt, söng og kom fram með nokkrum hljómsveitum. Þekktust þeirra er Q4U sem starfaði með hléum í 35 ár og gaf út tónlist bæði hérlendis og erlendis. Árið 2001 lauk ég námi frá LHÍ og flutti með börnin mín til Akraness. Þar starfaði ég sem forstöðumaður tómstunda- og menningarhúss, ásamt því að sjá um kennslu í myndlist, tónlist og dansi. Árið 2006 tók ég að mér að vera dómari í X-Factor á Stöð 2 en vann eftir það við myndlist og tónlist. Í nokkur ár frá 2017 bjó ég erlendis og hætti þá í Q4U. Nú starfa ég sem verkefnastjóri myndlistar í Vinasetrinu, ásamt því að mála. Myndum mínum er rétt lýst sem rómantískum og litríkum sem er auðvitað algjörlega á skjön við það sem ætla mætti af pönkaranum úr Q4U. Mögulega er það vegna þess að ég er í eðli mínu afar lífsglöð og finnst nóg um þessi niðurdrepandi neikvæðni sem tröllríður öllu. Ævintýri hafa alltaf höfðað til mín og einnig það dularfulla sem við getum ekki fest hönd á,“ segir Ellý Q.
–
Opið verður virka daga kl. 10-18 og laugardaga kl. 11-16. Sýningarlok 30. september.