Siggi sjötugi skrifar:
–
Borgarstjórinn í Reykjavík býður öllum borgarbúum sem eru sjötugir á árinu ásamt mökum eða gestum til móttöku í Ráðhúsinu á næstunni. Þeir sem verða sjötugir á árinu 2024 eru um 3500 á landinu öllu, þar af rúmlega þúsund í Reykjavík. Af þessum hópi eru um 700 giftir eða í sambúð. Því má gera ráð fyrir að fjöldi sjötugra Reykvíkinga sem mæta með mökum eða gestum fari hátt í tvö þúsund manns. Móttaka þar sem boðið er upp á vín og meðlæti, greidd með útsvari Reykvíkinga á öllum aldri, gæti því kostað nokkrar milljónir þótt ekki verði full mæting.
Tilefni þessarar einkennilegu móttöku er að heiðra þessa sjötugu útsvarsgreiðendur í Reykjavík. Ýmsir eru væntanlega þeirrar skoðunar að ekki sé mikill sómi að slíkum ,,heiðri“. Borgarstjórinn hlýtur að vera haldinn af aldursfordómum hugsa einhverjir sem fengu hið skrýtna boðskort. Hvað með kostnaðinn af þessari einkennilegu móttöku? Fréttir herma að borgin sé á hausnum og skynsamir sjötugir einstaklingar telja væntanlega fjármagni betur varið í annað en að draga fólk í dilka á grundvelli aldurs. Það væri nær að veita peningunum til hjúkrunarheimila þar sem aldrei er boðið upp á freyðivín og uppistaða fæðunnar er súpusull og brauð.
Hugmyndin um að heiðra fólk á grundvelli aldurs með veislu hjá borgarstjóra gengi upp ef um væri að ræða þá sem náð hafa 100 ára aldri í ár en þetta sjötugsboð er smekkleysa og tímaskekkja. (Ímyndið ykkur Mick Jagger þiggja boð fyrir alla áttræða og maka þeirra). Þeir sem verða tíræðir á árinu 2024 eru sautján talsins á landinu öllu, þar af um þriðjungur í Reykjavík og væntanlega fæstir með maka. Það væri vel við hæfi að heiðra þessa örfáu 100 ára Reykvíkinga (þótt ekki sé öruggt að þeir kjósi í næstu kosningum), fólk sem man tímana tvenna og er fætt á þeim tíma þegar Knud Ziemsen var borgarstjóri.
Knud lét af störfum 57 ára að aldri (aðeins tíu árum eldri en núverandi borgarstjóri) ,,orðinn slitinn af kröftum i þágu borgarinnar“, eins og segir í andlátsfrétt hans í Morgunblaðinu. Knud Ziemsen lét sig ekki muna um að stjórna umferðinni í Reykjavík á þriðja áratugnum. Næsti borgarstjóri á eftir honum, Jón Þorláksson verkfræðingur og íhaldsmaður, hefði snúið sér við í gröfinni hefði hann orðið vitni að því bruðli sem einkennir núverandi borgarstjórn. Jón hafði setið á þingi áður og undir hans forystu varð í febrúar 1924 til þingmannaflokkur, sem taldi brýnt að kippa fjármálum ríkisins í lag. Þetta ætti núverandi borgarstjóri að hafa í huga. Besta afmælisgjöfin til þeirra sem hann telur að þurfi að heiðra, væntanlega af því að þeir séu búnir að vera, væri að sýna lit, vinna fyrir háu laununum sínum og ,,slíta sér út í þágu borgarinnar“ eins og Knútur forðum.