Katrín Jakobsdóttir fyrrum forsætisráðherra fer fyrir bókmenntagöngu um sögusvið íslenskra glæpasagna ásamt Ármanni bróður sínum þar sem reynt verður að svara spurningunni „Hversu mikilvægt er borgarlandslagið fyrir sakamálasöguna og hvernig mótast sögur af staðarvalinu?“ Gangan er farin í boði Borgarbóksafnsins sem hluti af verkefninu Glæpafár á Íslandi að kvöldi þriðudagsins 3. september. Lagt verður upp frá Borgarbókasafninu í Grófinni, Tryggvagötu 15.
–
Katrín Jakobsdóttir er nú þekktust fyrir önnur störf sín en upphaflega var hún sérfræðingur í sögu og þróun glæpasögunnar, m.a. elstu glæpasögunum sem áttu sér stað á Hótel Borg og Klapparstígnum en einnig sögum Arnaldar Indriðasonar sem komu Norðurmýrinni og Grafarholti rækilega inn í íslenska bókmenntasögu.
Ármann Jakobsson er bróðir hennar og hefur sent frá sér einar sex sögur um glæp, m.a. eina sem er staðsett nálægt Háskólanum og aðra sem gerist einkum á Freydísargötu sem nú er einmitt að verða til á höfuðborgarsvæðinu.