„Það getur skipt máli fyrir heilsu þína hvar þú situr þegar þú ferð í flug, sérstaklega löng flug. Rannsóknir benda til að það sé verra fyrir heilsuna að sitja í gluggasæti en við gang,“ segir Dr. Axel F. Sigurðsson hjartalæknir á vefnum hjartalif.is:
„Þetta hefur ekkert með gluggann sjálfan að gera, geimgeislun eða hitastig sem kannski væri það fyrsta sem maður gæti látið sér detta í hug.
Þekkt er að á löngu flugi geta myndast blóðtappar í djúpum bláæðum ganglima, fyrirbæri sem kallað hefur verið DVT (deep vein thrombosis). Lengi vel var talið að meiri hætta væri á þessu ef ferðast er í venjulegu farrými og fékk DVT því viðurnefnið “economy class syndrome”. Slíkir blóðtappar eru ekki hættulausr enda geta þeir rekið til lungna og setið fastir í slagæðum þeirra (blóðtappi í lunga).
Ef þú ert í löngu flugi skaltu standa upp á 1-2 tíma fresti og ganga um. Hikaðu ekki við þetta, jafnvel þótt þú sitjir í gluggasæti og þurfir að vekja farþegana við hliðina á þér. Þeim kemur að vísu ekki til með að finnast þú ánægjulegur ferðafélagi en það gleymist. Það er ekki ráðlegt að taka svefntöflu og liggja í hnipri allt flugið.“