„Fyrir nokkrum árum sagði Roger að ég þyrfti að segja sér hvar ætti að jarða mig og hvernig jarðarförin ætti að vera. Hann ætlaði að gera það sama,“ segir Úlfar Bragason frá Akureyri, fyrrum forstöðumaður Stofnunar Sigurðar Nordal og nú eldri borgari á eigin vegum:
„Ég settist niður og skrifaði dagskrá – aðallega tónlist. Hann sagði þetta allt of mikið – ég sagði að það þyrfti að skemmta fólki. Nú er ég að skera þetta niður. En sem sagt eitt er nauðsynlegt, sleppa ræðu og lesa heldur yfir mér dauðum texta afa míns úr Skriftamálum einsetumanninsins: Návíst hins ósýnilega. Svo má auðvitað ekki gleyma að syngja „Nú hnígur sól“. Textann gerði frændi minn, Axel Guðmundsson frá Grímshúsum. Afi og Axel voru báðir afkomendur Hólmfríðar Indriðadóttur skáldkonu á Hafralæk.“