Reykjavíkurborg kynnir með stolti:
–
Mögnuð Vetrarhátíð verður sett fimmtudaginn 6. febrúar 2025 á Ingólfstorgi. Hátíðin lífgar upp á borgarlífið og allir viðburðir tengjast ljósi og myrkri með einum eða öðrum hætti og frítt inn á alla viðburði.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri mun opna hátíðina með því að kveikja á ljóslistaverkinu Lightbattle III á Ingólfstorgi klukkan 19:00 þann 6. febrúar. Verkið kemur frá hollenska ljósahönnunar fyrirtækinu Venividimultiplex sem sérhæfir sig í ljóslistaverkum. Um er að ræða þátttökuverk sem sýnt hefur verið víðs vegar um heim og hefur slegið í gegn.
Í uppsetningunni eru tveir gagnvirkir ljósbogar, með samtals sex reiðhjólum, þrjú frá gagnstæðum hliðum. Þátttakendur setjast á hjólin og hjóla eins hratt og þeir geta. Hjólin keyra upp aflið sem kveikir á LED ljósboga og eftir því sem hjólað er hraðar því sterkari verða litirnir í ljósboganum og myndar skemmtilegt sjónarspil ljóss og lita.
Ljósaslóð Vetrarhátíðar í ár er prýdd 20 verkum sem lýsa upp skammdegið á skapandi hátt og myndar gönguleið frá Hallgrímskirkju að Ráðhúsi Reykjavíkur. Og margt fleira til:
Í Aðalstræti 10 er eftirmynd af nýlenduvöruverslun Silla & Valda frá árinu 1955. Verslunin er góður bakgrunnur fyrir skemmtilega myndatöku með vinum og fjölskyldu á Safnanótt.