Kjósandi skrifar:
–
Nei, Kristrún Frostadóttir verður ekki næsti forsætisráðherra heldur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Alveg sama hvernig kosningar fara.
–
Miðað við kannanir verður Viðreisn í lykilstöðu eftir kosningar. Viðreisn verður komin þangað sem Framsókn hefur alltaf verið, að geta hallað sér bæði til hægri og vinstri. En sú staða byggist á að hafa þokkalegan fjölda þingmanna og það mun Viðreisn hafa.
–
Viðreisn verður líklegast með fleiri þingmenn en Sjálfstæðisflokkurinn, sem þýðir að ef hún hallar sér þangað ásamt Miðflokknum til að mynda hægri stjórn, þá tekur Þorgerður við sem forsætisráðherra. Auðvitað gæti Sigmundur Davíð krafist þess að verða forsætisráðherra, en þá sýnir Þorgerður bara vinstri vangann.
–
Þó Samfylkingin fái fleiri þingmenn en Viðreisn, þá getur Samfylkingin ekki myndað vinstri stjórn án Viðreisnar. Þorgerður K verður þar með pálmann í höndunum og velur sér stól við borðsendann. Framsókn þarf svo til að ná fullum meirihluta og hugsanlega þingmaður Pírata eða Vinstri grænna, ef þeir verða fyrir hendi á annað borð.
–
Kristrún tekur þá að sjálfsögðu við sem fjármálaráðherra, enda er það rétti ráðherrastóllinn til að hrinda í framkvæmd áformum um aukna skattlagningu.