Í fimm mánuði í vetur verður sérstök vetraropnun í Kaffistofu Samhjálpar fyrir einstaklinga sem hafa miklar og flóknar þjónustuþarfir. Þetta er annar veturinn sem ráðist er í slíka opnun en hún þótti reynast vel í fyrra. Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu taka þátt í vetraropnuninni, líkt og í fyrra.
Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær hafa undirritað samning við Samhjálp vegna sérstakrar vetraropnunar.
Vetraropnunin verður í gildi frá 1. nóvember og út marsmánuð. Það er tveimur mánuðum lengri opnunartími en í fyrra, þegar opið var frá 1. desember og út febrúarmánuð.
Sveitarfélögin greiða Samhjálp 2,5 milljónir á mánuði í fimm mánuði fyrir þjónustuna og greiða þau í hlutfalli við íbúafjölda hvers sveitarfélags.
Kaffistofa Samhjálpar er ætluð fólki sem glímir við fátækt af mismunandi ástæðum og þau sem eru í neyð. Venjulegur opnunartími þar er alla daga ársins milli klukkan 10 og 14. Þar er alltaf í boði morgunverður, kaffi, súpa og heitur matur daglega.
Vetraropnunin felst í því að Kaffistofan verður opin heimilislausum einstaklingum með miklar og flóknar þjónustuþarfir á milli 14 og 16.30 en á þeim tíma eru neyðarskýlin sem rekin eru í Reykjavík lokuð. Á lengdum opnunartíma verður boðið upp á kaffi, mjólk, djús, heita súpu og brauðmeti ásamt meðlæti.