„Mig svimaði eftir að hafa lesið kynningu ríkisstjórnarinnar á svo kölluðum aðgerðum í útlendingamálum,“ segir Sigmundur Davíð fyrrum forsætisráðherra og formaður Miðslokkssins:
„Líklega var það vegna allrar froðunnar eða reiðinnar yfir því að borgurum landsins skuli boðið upp á aðra eins óstjórn á sama tíma og hver stjórnmálamaðurinn af öðrum viðurkennir að málaflokkurinn sé stjórnlaus.
Þarna birtast engir tilburðir til að ná stjórn á vandanum. Bara leiðir til að viðhalda honun.
Aukin þjónusta, aukinn kostnaður og nýjar aðferðir fyrir ríkið til að sölsa undir sig húsnæði til að hýsa hælisleitendur.
Einnig er það beinlínis gert að markmiði að fá fleira fólk til að flytjast til landsins frá ríkjum utan EES (á sama tíma og erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað um meira en 15 fyrir hvern 1 Íslending sem bætist við).
Það er að vísu hent inn setningum á borð við „Með því að fækka umsóknum sem ekki uppylla skilyrði um vernd og auka skilvirkni í afgreiðslu umsókna sparast fé…” Þetta fé á að nota til að auka þjónustuna. Ekki er útskýrt hvers vegna umsóknum ætti að fækka með meiri þjónustu.
Talsvert er fjallað um nýja hugtakið „inngildingu”, þ.e. að Íslendingar lagi sig að útlendingum. Orðið aðlögun er ekki nefnt. Þó stendur til að gefa út bæklinga á ýmsum tungumálum um hvaða reglur gildi á Íslandi. Þannig verður hægt að lesa á arabísku um jafnan rétt „allra” kynja. Það hlýtur að leysa málið!
Fram kemur að „farið verði í sérstakt tveggja ára kynnningarták til að auka umburðarlyndi gagnvart íslensku með hreim”. Í hvaða heimi býr þetta fólk?
Ég veit ekki betur en að Íslendingar kunni mjög að meta það þegar útlendingar leggja á sig að læra málið. Vandinn liggur ekki þar.
Tungutakið og áherslurnar benda til að skjalið og stefnan séu fyrst og fremst unnin í félagsmálaráðuneytinu. VG fær allt sitt strax en í lokin er þó getið um að enn standi til að ráðast í breytingar á regluverki á sviði verndarmála til samræmingar við löggjöf á Norðurlöndum.
Þið getið sjálf metið líkurnar á að það klárist hjá þessari ríkisstjórn.
VG bíta svo höfuðið af skömminni með því að láta þingflokka Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks afgreiða málið úr sínum þingflokkum fyrst á meðan þeir segjast þurfa meiri tíma til að velta því fyrir sér.
Niðurlægingin fullkomnuð.“