
Reykjavíkurborg mun gera húsaleigu- og uppbyggingarsamning við Veraldarvini félagasamtök, um Sunnutorg, Langholtsvegi 70. Húsið verður endurbyggt í upprunalegri mynd og mun meðal annars hýsa fræðslustarf í umhverfismálum.
Reykjavíkurborg auglýsti eftir aðila til að byggja upp Sunnutorg með útboði nr. 15893, þann 22. september 2023. Engin gild tilboð bárust svo ákveðið var að fara í samningskaup við Veraldarvini, en félagið skilaði inn tilboði eftir að frestur var runninn út. Þetta var samþykkt í í borgarráði í dag
Lifrænt og list
Veraldarvinir sjá fyrir sér að Sunnutorg og húsið þar verði staður þar sem íbúar hverfisins og aðrir Reykvíkingar geti sótt sér fræðslu um sjálfbærni og allt sem henni fylgir. Sér félagið fyrir sér að bjóða nemendum í grunnskólum hverfisins í fræðsluheimsóknir en auk þess verður fræðsla í boði fyrir aðra hópa. Húsið verður endurbyggt og rekið af sjálfboðaliðum Veraldarvina, sem sjá einnig fyrir sér að setja upp markað á Sunnutorgi fyrir lífrænt ræktaðar afurðir og aðstöðu fyrir listamenn til að sýna og jafnvel selja, list sína.
Gert er ráð fyrir að Veraldarvinir geti hafið framkvæmdir við húsnæðið, sem verður endurbyggt í upprunalegri mynd, innan við þremur mánuðum frá undirritun samnings og að starfsemi hefjist í húsnæðinu eigi síðar en á vormánuðum 2026. Munu samtökin fjármagna framkvæmdirnar að fullu og gildistími leigusamnings er 15 ár. Að þeim tíma liðnum ber Veraldarvinum að skila eigninni til Reykjavíkurborgar og verða allar fastar framkvæmdir og viðbætur eign borgarinnar við lok leigutíma.