Stefnt er að því að hefja framkvæmdir í stóra hólmanum í Tjörninni eftir helgi en markmið framkvæmdanna er að styrkja fuglalífið á Tjörninni. Farið verður í aðgerðir til þess að bæta varpland í hólmanum, fyrir til að mynda endur, og einnig verða bakkavarnir endurnýjaðar. Á meðan framkvæmdir standa yfir í desembermánuði þarf að loka fyrir aðgengi gangandi að Tjörninni til móts við Fríkirkjuna og verða settar upp hjáleiðamerkingar.
Áður hefur verið farið í svipaðar framkvæmdir í Þorfinnstjörn með góðum árangri þar sem kríuvarp hefur eflst merkjanlega. Með aðgerðunum fylgir Reykjavíkurborg eftir ráðleggingum líffræðinga sem vaktað hafa lífríki Tjarnarinnar um árabil.
Fjarlægja á efsta hluta núverandi yfirborðs af hólmanum, leggja út jarðvegsdúk, möl og jarðveg. Hluti hólmans verður þökulagður á ný. Það er gert til þess að draga úr sókn hvannar og annarra stórvaxinna tegunda sem draga úr gæðum varplands í hólmanum. Grjótkantur umhverfis hólmann verður endurhlaðinn til þess að draga úr rofi.
Frostið nýtt til framkvæmda
Stefnt er á að nýta frostakafla framundan til þess að fjarlægja efsta lagið af hólmanum og flytja efni út í hann. Það er gert nú þar sem flytja þarf efnið á ís. Til þess að ljúka seinasta hluta framkvæmda þarf að bíða þangað til vorar á ný. Þá verður hægt verður að ganga frá hleðslu umhverfis hólmann og tyrfa yfir valin svæði. Verklok eru áætluð í lok maí 2025.