,,Ég flutti í Öræfi í ágúst síðastliðinn, sem var töluverð áskorun fyrir mig. Þá var haustið að byrja og veturinn með myrkrinu sem varð svartara dag frá degi. Eftir smá tíma áttaði ég mig á því að ég hafði ekkert á móti þessum kröftum í náttúrunni hérna í Öræfum. Krafturinn er þvílíkur að þú hneigir þig auðmjúkur. Hérna sérðu sjóndeildar hringinn þegar bjart er, og á veturnar sest sólin vestur frá þér þar sem þú stendur. Vindurinn og tómið haldast í hendur í þessu verki og vísa í tómið sem ég horfði inn í, þessi grái suddi sem varð dekkri með hverjum deginum. Einnig vísar verkið til tómsins sem ég upplifði í sálinni við að flytja svona afskekkt. Nú er sumarið komið og ég sé sjóndeildarhringinn; hinn eiginlega og sjóndeildarhringinn í sjálfum mér.’’
–
Föstudaginn 12. júlí kl. 16 verður opnuð sýning á verkum Spessa í Úthverfu á Ísafirði. Sýningin ber heitið FAUK og stendur til sunnudagsins 4. ágúst. Listamaðurinn verður viðstaddur opnun sýningarinnar þar sem boðið verður uppá léttar veitingar og spjall.
–
Ljósmyndarinn Sigurþór „Spessi“ Hallbjörnsson er einn af mikilvægustu sjónrænum annálahöfundum Íslands. Stíll hans er djarfur, einfaldur og afhjúpandi, en hlaðinn húmor, samúð og skilningi á viðfangsefnum, stöðum eða aðstæðum sem hann myndar. www.spessi.com