„Það er með hreinum ólíkindum hvernig hatramir andstæðingar Bjarna Benediktsson hafa talað um manninn, sérstaklega núna þegar hann víkur af þingi og hættir sem formaður Sjálfstæðisflokksins,“ segir Arnþór Jónsson sellóleikari sem var formaður SÁÁ um sjö ára skeið:
„Nokkrir pólitíkusar hafa á undanförnum árum verið með mikinn gauragang á þingi og reynt að slá sjálfa sig til riddara sem eindregna stuðningsmenn SÁÁ. Oftast hefur þetta verið óttalegt suð í fólkinu, göfgiþrá og sjálfhverf gagnslaus tilfinningavella.
Staðreyndin er sú að enginn stjórnmálamaður gerði jafn mikið fyrir SÁÁ og Bjarni Benediktsson. Segja má að á sínum tíma, þegar hann var nýorðinn fjármálaráðherra 2014, hafi hann hreinlega bjargað fjárhag SÁÁ og gert samtökin rekstrarhæf.
Það gerði hann með því að leysa áralangar deilur um uppsafnaðar lífeyrissjóðsskuldbindingar úr svokölluðum b-hluta LSR. Skuldin var sligandi í bókhaldinu, um átta hundruð milljónir og töldu endurskoðendur að samtökin væru í raun ekki rekstrarhæf.
En Bjarni hjó á þennan hnút fljótlega eftir að hann tók við fjármálaráðuneytinu, nokkuð sem enginn fyrirrennara hans hafði haft vilja eða getu til að gera, og leysti SÁÁ úr þessum bókhaldsfjötrum.“