Það er gaman ganga með Pétri H. Ármannssyni arkitekt og fararstjóra hjá Ferðafélagi Íslands til margra ára um borgarlandið því fáir ef nokkrir þekkja betur eðli og inntak húsanna en hann.
–
Kannski má orða það þannig að Pétur bendi á það sem allir sjá, en fæstir taka eftir. Sjálfur er Pétur þeirrar náttúru að hann les ekki bara húsin fyrir okkur hin sem erum ekki jafnlæs á byggingar, hann er líka vel lesinn í sögunni og vitnar oft í skáldin í ferðum sínum. Hann hefur enda leitt fólk í fótspor Nóbelsskáldsins Halldórs Laxness, bæði í borginni og í nágrenni Gljúfrasteins auk þess að ganga um sögusvið bóka á Álftanesi. En þekktastur er Pétur fyrir borgargöngurnar hjá Ferðafélagi Íslands sem tengjast allar skipulagi, sögu, mannlífi og byggingum.
–
„Hús og önnur mannvirki segja ákveðna sögu og það gefur lífinu gildi að þekkja þá þætti sem mótað hafa okkar nánasta umhverfi,“ segir Pétur þegar vikið er að mikilvægi bygginganna í borginni. Og hann vitnar strax í Ofvitann eftir Þórberg Þórðarson sem skrifaði listilega um sjálfan sig og samferðarfólk sitt í Reykjavík á fyrstu áratugum 20. aldar.
„Í Ofvitanum talar Þórbergur um húsin sem bókfell aldanna,“ segir Pétur og bætir svo við að oft sé vitnað til þessara orða Þórbergs : „Allir Íslendingar kunna að lesa bækur. En hversu margir kunna að lesa hús? Það er meiri íþrótt að kunna að lesa hús, en að geta lesið bækur. Húsið er hugsun, sem hefur hæð, lengd og breidd. Bókin er vöntun á hugsun sem aðeins hefur lengd. Húsið er sannleikurinn um líf kynslóðanna. Bókin er lygin um líf þeirra.
–
„Menn búa í húsum, hús búa í mönnum og hús og menn farast hjá,“ orti skáldið Sigfús Daðason.
Af þessum línum Sigfúsar má auðveldlega ráða að húsin móta líf okkar sem búum í þeim ogmeð þeim og nákvæmlega þannig orðar Pétur það sjálfur: „Við verðum að lifa með húsunum hvort sem okkur líkar betur eða vel – við höfum ekkert val.“
–
Þegar gengið er með Pétri í þéttbýlinu – á malbikinu eins og stundum er sagt – verður fólk þess fljótt áskynja að hann er með mikla þekkingu á sviði byggingarlistar og skipulagssögu og flestar ferðir hans taka mið af því. Það kom því fáum á óvart þegar Pétur hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir tveimur árum fyrir miðlun þekkingar á sögu byggingarlistar á Íslandi og sömuleiðis fyrir rannsóknir á því sviði. Þeirrar miðlunar njóta öll þau sem ganga með honum í ferðum Ferðafélags Íslands um borgina. Pétur segir brýnt fyrir fólk að vera læst á umhverfi sitt – þar skipti þekking á undirstöðuatriðum byggingarlistar máli.
–
„Umfjöllun á sviði byggingarlistar og skipulagssögu má þó ekki vera of sértæk eða fræðileg í gönguferðum ef hún á að ná eyrum þátttakenda með ólíkan bakgrunn. Íslendingar eru sagnaþjóð og því hefur mér reynst vel að flétta inn í leiðsögnina frásagnir af fólki og viðburðum tengdum þeim stöðum sem skoðaðir eru á göngunni, jafnframt því að fjalla um hús og skipulag. Stundum gerist það að þátttakendur í göngunni uppgötva nánasta umhverfi sitt í nýju ljósi og þá er tilganginum náð.“
–
Þegar Pétur er spurður um áhrif húsanna á okkur sem ferðumst um þessa borg í bíl, gangandi, hjólandi eða á rafskútum eins og nú er móðins, þá svarar hann að bragði að húsin séu einfaldlega til staðar og séu okkur nauðsynleg, þau tryggi okkur öryggi og skjól. Hönnun þeirra, útlit og viðmót hafi líka áhrif á vellíðan okkar, meðvitað og ómeðvitað. „Guðjón Samúelsson og fleiri menntamenn af aldamótakynslóð trúðu því að vel skipulagðar borgir og falleg hús hefðu mannbætandi áhrif jafnt fyrir andlega og líkamlega vellíðan fólks og því væri borgarskipulag mikilvægt lýðheilsumál.“
–
Pétur er vel að sér um byggingarnar sem Guðjón Samúelsson hannaði en þær blasa víða við í Reykjavík og reyndar um land allt. Fyrir bók sem Pétur reit um Guðjón hlaut hann viðurkenningu Hagþenkis en Hið íslenska bókmenntafélag gaf út það merka rit. Pétur hlaut jafnframt tilnefningu til hinna eftirsóknarverðu Íslensku bókmenntaverðlauna fyrir sama riten slíkar tilnefningar hefur Pétur reyndar hlotið í tvígang.
–
Ferðafélag Íslands fagnar brátt 100 ára afmæli sínu:
Pétur segist fyrst hafa farið í sumarleyfisferðir með Ferðafélagi Íslands á síðasta áratugi 20. aldar en hann hafði áður farið í styttri göngur á fell og hæðir í nágrenni Reykjavíkur.
„Ég komst snemma í kynni við Guðmund heitinn Hallvarðsson fararstjóra,“ segir Pétur og með þeim orðum snertir hann þráð í þeim sem þetta ritar. Við eigum það nefnilega sameiginlegt við Pétur að hafa átt fyrstu löngu göngurnar okkar með Ferðafélagi Íslands með Guðmundi sem var ættaður frá Hlöðuvík á Hornströndum. „Hann var brautryðjandi í því að fara með hópa á svæðið norðan við Ísafjarðardjúp. Næstu árin fór ég í ógleymanlegar ferðir um þær slóðir undir traustri leiðsögn Guðmundar. Það vareinmitt Guðmundur sem bað mig upphaflega um að vera með leiðsögn í árlegum janúargöngum um höfuðborgarsvæðið, fyrst á vegum Hornstrandafara og síðar sem hluti af dagskrá Ferðafélagsins. Eftir Hornstrandir bættust aðrir staðir við: Þjórsárver, Kjalvegur hinn forni og Kerlingarfjöll, Jarlhettuslóðir, Öskjuvegur, Lónsöræfi, Rauðisandur, Látrabjarg oguppland Skaftártungna, svo nokkur dæmi séu nefnd. Í öllum þessum ferðum nutum við leiðsagnar farastjóra á heimsmælikvarða sem í öllum tilvikum voru sérfróðir um það landssvæði sem leiðin lá um. Bestu ferðalögin eru þau þegar fræðsla um sögu staða og náttúru landsins helst í hendur við útivist og hreyfingu. Þetta tvennt verður ekki aðskilið að mínu mati. Í þessum efnum hefur vönduð fararstjórn skapað Ferðafélagi Íslands mikilvæga sérstöðu.“