HomeGreinarSÖNGELSKIR TVÍBURAR GERA GÖNGUSTÍG Í ÚLFARSFELLI

SÖNGELSKIR TVÍBURAR GERA GÖNGUSTÍG Í ÚLFARSFELLI

Einn vinsælasti göngustígurinn í borgarlandinu liggur eins og þráður frá austurhlíðum Úlfarsfells og alveg upp á efri bunguna. Þar hefur Ferðafélag Íslands komið fyrir útsýnisskiltum og bekk fyrir þau sem vilja varpa mæðinni andartak og njóta útsýnis á þeim mikla palli sem þar er.

Tvíburarnir á fullu í hlíðum Úlfarsfells.
Tvíburarnir á fullu í hlíðum Úlfarsfells.

Þau sem fara oft stíginn, og ganga tröppurnar, sem eru haganlega sniðnar inn í hlíðina, geta átt vona á bræðrum við störf í brekkunni en þeir kasta gjarnan kankvísir kveðju á þau sem fara hjá. Þetta eru þeir Ævar og Örvar Aðalsteinssynir, þúsund þjala smiðir og lífskúnstnerar.

Þeir eiga afmælisdaginn sameiginlegan, enda tvíburar. Stundum ræða þeir heimsmálin við göngufólk, oft annar því þeir eru ekki mjög oft samtímis í brekkunum, og þá er sá sem er við vinnuna á stígnum bara býsna hress og viðræðugóður. Hallar sé fram á rekuna, talar um veðrið og fleira og lagar gleraugun á nefinu.

Svo þegar göngumaður kemur næst og ætlar að halda áfram með spjallið og rifjar upp skemmtilegustu kaflana frá því síðast , þá horfir bara bróðirinn heldur tómur til augnanna á móti og kannast ekki við neitt.

Heyrðu, þú hefur sennilega hitt bróðir minn, ekki mig, mér er sagt að við séum dálítið líkir.“

Stígurinn sem þeir eru alltaf að laga og leggja bræðurnir er oft kallaður Dagatalið meðal þeirra sem fara hann oft – það er nefnilega eitt þrep fyrir hvern einasta dag á árinu.

Jú, jú, þetta eru nákvæmlega 365 tröppur, það var reyndar algjör tilviljun,“ segir Örvar og hlær þegar ég hitti bræðurnar í viðhaldsverkefnum í Úlfarsfellinu og hasta aðeins á hundana mína því þeir vilja líka ræða heimsmálin við bræðurna.

Eruð þið ekki með svona aukaþrep, svona út til hliðar fyrir hlaupársdaginn í febrúar.“

Nei, nei, það þarf ekki, þetta eru 365 tröppur, svona innan ákveðinna skekkjumarka!“

Og aftur er hlegið.

Stikaðar leiðir mjög mikilvægar

Þótt Ferðafélagið hafi verið einstaklega öflugt í að stika gönguleiðir – þá er þessi stígur ekki unnin á vegum FÍ, þótt bræðurnir séu báðir alvanir fararstjórar hjá félaginu. Það eru skátafélagið Mosverjar í Mosó sem leggur stíginn í félagi við Heilsubæinn Mosfellsbæ.

Það var stikuð leið hér árið 2008 sem var farin að slitna mikið og vaðast út,“ segir Örvar og bendir á leifar af gömlu leiðinni. „Þá sáu menn þann kost vænstan að gera göngustíg og tröppur þar sem var brattast. Verkið tók hátt á fimmta ár. Við erum í viðhaldinu núna, erum að bæta og breyta.“

Það ar vafalítið gaman fyrir þá bræður að sjá hversu vel stígnum hefur verið tekið og mjög mörg ganga þessa leið allan ársins hring. Þeirra á meðal sá sem þetta ritar sem fer að minnsta kosti vikulega með hundana sem eru ekki síður glaðir með þá bræður en sá sem lemur hér lyklana.

Þar sem umferð hefur víða aukist eins og hér þarf að gera göngustíga til að vernda landið og stýra umferðinni í örugga og góða slóð,“ segir Örvar og bætir því við að FÍ hafi einmitt gert mikið af stígum og stikað mjög margar gönguleiðir. „Já, sjáfsagt að halda því góða starfi áfram,“ grípur Ævar frammí fyrir bróður sínum. „Ferðafélag Íslands er mikilvægt afl í að gefa almenningi tækifæri til að upplifa eigið land, ekki síst með því að stika leiðir og bæta öryggi.“

Þegar við horfum yfir allt þetta mikla svæði sem tilheyrir Úlfarsfelli, þá er eins og þeir lesi mig, þeir svara spurningunni minni áður en hún sprettur fram á varirnar.

Já, þetta er flott! Það er mjög mikilvægt að þéttbýlisfólk eins og þú hafi auðvelt aðgengi að náttúrulegum svæðum. Á höfuðborgarsvæðinu eru nokkur góð útivistarsvæði en það mætti bæta aðgengi, fjölga svæðum og tengja þau betur saman. Skógræktarsvæði eins og hér er gott dæmi, sem á nokkrum áratugum hafa orðið að frábæru útivistarsvæði en oft vantar betra aðgengi, stíga og merkingar. Margt gott hefur áunnist á síðustu árum og það þarf bara að halda áfram á sömu braut.“

Bræður í fararstjórn

Þeir bræður hafa verið í talsverðan tíma fararstjórar hjá FÍ enda alvanir skátar frá því í den, byrjuðu sjö ára að læra að binda hnúta og tóku skátasöngvana í pásunum. Þeir urðu seinna virkir í Alpaklúbbnum gamla og Hjálparsveit skáta. Þetta ýtti þeim í Ferðafélagið, já og auðvitað líka ástin á útivistinni. Þeir bræður sáu um gönguverkefnið Eitt fjall á mánuði í átta ár ásamt fararstjórn í ýmsum öðrum ferðum, ekki síst þeim þar sem reyndi á fólk og það fékk að bera byrðar í nokkuð erfiðum fjallgöngum.

Núna erum við aðstoðarfararstjórar í gönguhópunum Léttfeti, Fótfrár og Þrautseigur. Við höfum líka verið með göngu- og hjólaferðir sem hafa verið í áætlun FÍ,“ segir Örvar.

Tónelskir tvíburar endurbyggja sæluhús á Mosfellsheiði

Gamlir skátar kannast nær allir við þá bræður, Örvar og Ævar því þeir héldu gjarnan uppi stuðinu í tjaldútilegunum og skátaskálunum í gamla daga en tóneyra þeirra var og er með ólíkindum og gítargripin eru svoleiðis algerlega á tæru. Það var sama hvað óskalög voru nefnd, allt hristu þeir af fingrum fram og meira segja Bach ef beðið var af mikilli auðmýkt. Textarnir flutu svo með vel smurðir. Þeir voru svona hálfgerðir Proclaimers Íslands, en margir muna eftir skosku tvíburunum Craig og Charlie sem sungu sig inn í hjörtu allra með laginu I‘m gonna be. „But, I will walk five hundred miles, and I would walk five hundred more!!“

Þeir hlæja nú bara þegar þetta er fært í tal, en þeir spila samt enn á gítarana sína. Þeir eru samt meira með verkfærin á lofti og áttavitann eða gps-tækið, en handlagnin hefur margsinnis verið virkjuð af Ferðafélaginu. Nú síðast í sæluhúsinu á Mosfellsheiðinni en þeir bræður búa báðir í Mosfellsbæ og þurfa ekki að fara ýkja langt með tól sín og tæki.

Á undanförnum árum höfum við gjarnan farið á gönguskíðum um Mosfellsheiði og komið oft að sæluhúsarústinni við gamla Þingvallaveginn. Þegar FÍ fór að leggja drög að uppbyggingu og endursmíði hússins var haft samband við okkur og við tókum að okkur að stýra verkinu ásamt Bjarka Bjarnasyni.“

Þeir segja þetta ekki í kór, en svona fléttast þessi orð saman í setningar frá þeim báðum.

Bjarkinn“ sem þeir nefna er einn af höfundum Árbók Ferðafélags Íslands árið 2019 sem fjallaði einmitt um Mosfellsheiði en hann reit bókina ásamt Jóni Svanþórssyni og Margréti Sveinbjörnsdóttur, en í bókinni segir frá sæluhúsinu á heiðinni.

Við leggjum áherslu á að endurbyggja sæluhúsið í upprunalegri mynd, en notum nútíma byggingaraðferðir eins og hægt er. Það á eftir að koma í ljós hvernig til tekst, en húsið var reist 1890 og við vitum að margur hefur mátt skríða þar í skjól.“

Það fer býsna vel á því að FÍ endurbyggi sæluhúsið á Mosfellsheiði því félagið skipuleggur ekki bara ferðir og rekur fjallaskála, það nærir líka sögulegar rætur okkar allra með því endurbyggja eða endurnýja söguleg hús eins og þetta á Mosfellsheiði og skálann í Hvítárnesi.

Þeir eru á því bræðurnir að það sé ekki síður gott fyrir sálina að vinna úti í náttúrunni eins og við sæluhúsið og í Úlfarsfellinu en að arka um landið frjáls eins og heimsskautarefur.

Ísland státar af óspilltri náttúru sem er að verða einstæð á heimsvísu og verður að vernda. Aðgengi að óspilltri náttúru styður við betri heilsu bæði andlega og líkamlega fyrir utan að okkur takist að vernda náttúruna, gróður og dýralífið.“

Og svo held ég göngunni áfram og þeir halda áfram sínu striki í hlíðinni á Úlfarsfellinu, bræðurnir Örvar og Ævar, söngelskir tvíburar sem slá taktinn með hamarshöggum.

TENGDAR FRÉTTIR

BRIDGET JONES SNÝR AFTUR MEÐ HVELLI

Hugh Grant blæs í glæður gagnkvæmrar afbrýðissemi milli hans og keppinautarins Colin Firth nú þegar fjórða Bridget Jones myndin er væntanleg. Þeir hafa barist...

15 ATRIÐI TIL VARNAR HJARTAÁFALLI

Björn Ófeigsson ritstjóri hjartalif.is skrifar um óvænta þætti sem geta aukið líkur á hjartaáfalli. "Við þekkjum velflest þessa áhættuþætti eins og reykingar og lélegt mataræði...

TESLU EIGANDI AFÞAKKAÐI HJÁLP Í RAFMAGNSLEYSI Í VÍK

Teslu eigandi var fastur í Vík í Mýrdal á dögunum þegar straumur fór af öllu og hann alveg stopp. Renndi þá upp að honum...

Á RAUÐU LJÓSI AÐ BÍÐA EFTIR RÍKISSTJÓRN

Þeir standa vaktina fyrir framan Stjórnarráðið og hafa gert í næstum hundrað ár - Kristján IX Danakóngur og Hannes Hafstein ráðherra. Líkt á á...

GRÝLA SÝÐUR DÚKKUR Í POTTI Á LÆKJARTORGI

Jólabarn sendir myndskeyti: - Vegfarendum brá mörgum í brún er þeir áttu leið um Lækjartorg í gær. Þar í glerskála á miðju torginu er búið að...

TRUMP LEYSIR KVENNAMÁL SONAR SÍNS

Donald J. Trump hefur leyst kvennamál elsta sonar síns, Donalds yngri, með því að skipa kærustu hans, Kimberley Guilfoyle, sendiherra Bandaríkjanna í Grikklandi. Donald yngri...

DAGBÓK ÖREIGA

Valur Gunnarsson rithöfundur fékk ekki listamannalaun í ár þó sískrifandi sé og stefnir fyrir bragðið í vandræði hjá honum. Hann srifar í dagbók sína...

FLOTT SELFÍ Á ÚTSKRIFTARSÝNINGU

Sýning á útskriftarverkum þeirra nemenda sem ljúka diplómanámi í skapandi ljósmyndun frá Ljósmyndaskólanum í desember 2024 verður opnuð í Ljósmyndasafni Reykjavíkur föstudaginn 13. desember...

BENEDIKT HÆTTIR Á RÚV

"Þetta er bara orðið gott í bili," segir Benedikt Sigurðsson sjónvarpsfréttamaður RÚV sem hefur ákveðið að yfirgefa vinnustaðinn. Benedikt hefur starfað þar í tæp...

ÍSLAND ÖRYGGAST FYRIR FERÐAMENN – ENGIN GLÆPIR OG PÓLITÍSKUR STÖÐUGLEIKI!

Ísland trónir á toppi lista Globe Peace Index yfir 10 öruggustu lönd í heimi fyrir ferðamenn. Ástæðan: Glæpatíðni er nánast engin og viðvarandi pólitískur...

ÍSLENSK TALSETNING Í 32 ÁR

  "Við hjá Sambíóin / Samfilm byrjuðum að talsetja barnamyndir árið 1992 með Aladdin, sem var mikil tímamótaframleiðsla fyrir íslenska kvikmyndamenningu. Þessi ákvörðun hefur haft...

GÍNA Í PÁSU

Jólamstrið tekur á. Þessi gína í fataverslun í miðbænum var alveg búin á því og lagði sig - í nokkrum pörtum. Svo hélt hún...

Sagt er...

Það er föstudagurinn 13. í dag. Farið varlega og helst ekki neitt.

Lag dagsins

Fæðingardagur Frank Sinatra (1915-1998) sem hefði orðið 109 ára í dag. Jólabarn í desember og þess vegna eitt jólalag: https://www.youtube.com/watch?v=mMl4Pls41qI