„Siggi okkar hefur ósjaldan komið fjölskyldunni á óvart með því sem hann hann hefur tekið sér fyrir hendur allt frá því hann var barn að aldri,“ segir dægurlaga og myndlistarkonan Þuríður Sigurðardóttir en sonur hennar, Sigurður Helgi Pálmason, var kjörinn á þing fyrir Flokk fólksins í Suðurkjördæmi. Þuríður lætur hugann reika:
–
„Hann hefur farið eigin leiðir, á sínum forsendum, stundum á skjön við okkar lifnaðarhætti, eins og þegar hann 7 – 8 ára fór að stunda kaþólskar messur á sunnudögum, reyndar í næsta nágrenni, hjá nunnunum hér í Garðabæ. Hann klæddi sig upp á sunnudagsmorgnum, reimaði á sig messuskóna, sem hann kallaði svo, gekk til messu og ræddi svo trúmál við okkur heimilisfólkið eftir messu – og líf nunnana, sem honum þótti sérkennilegt og áhugavert.
–
Þegar hann var 11 ára spurði hann hvort við ættum skjalatösku, því hann ætlaði að fara á fund hjá Myntsafnarafélagi Íslands, með mynt sem hann hafði sankað að sér og vissi allt um. Við fundum gamla skjalatösku og horfðum á eftir honum ganga út á stoppistöð með töskuna, sem var svo sérkennilega stór í höndum drengsins. Áhugi Sigga á mynt hafði vaknað og í því eins og öðru kynnti hann sér mynt og seðla í þaula og fáir taka honum fram í þekkingu á því sviði og í Myntsafnarafélaginu eignaðist hann vini fyrir lífstíð, sem sumir voru þá á áttræðisaldri.
–
Og Siggi kom okkur enn eina ferðina á óvart þegar hann tilkynnti að hann ætlaði að gefa kost á sér í framboð fyrir Flokk Fólksins.
Ég veit að ef Siggi fer á þing mun hann vinna þar af heilindum, ósérhlífni og elju eins og hann gerir í lífinu öllu. Siggi má aldrei neitt aumt sjá, hann sinnir fólkinu sínu þannig svo eftir því er tekið og er alltaf til staðar fyrir vini og fjölskyldu, sem ég þykist vita að mun gjalda líku líkt og kjósa hann til góðra verka fyrir þjóðina, eins og fleiri. Það þarf fólk eins og Sigga á Alþingi.“