Austur Indíafjelagið, margrómaður veitingastaður á Hverfisgötu í Reykjavík, fagnar 30 ára afmæli í október ogt býður til veislu að því tilefni: 30 réttir, gamlir og nýir út allan mánuðinn.
„Við þetta tilefni er þakklæti okkur efst í huga. Þakklæti í garð allra þeirra tryggu gesta sem hafa gert okkur kleift að þroskast og dafna, sama hvað á hefur dunið. Þrítugsafmæli Austur-Indíafjelagsins er ekki aðeins okkar til að fagna, heldur ykkar einnig,“ Chandrika Gunnarsson sem stofnaði staðinn ásamt eiginmanni sínum sem lést langt fyrir aldur fram og síðan hefur hún staðið vaktina. Meðal fastagesta má nefna Dorrit Moussaieff og Harrison Ford:
„Okkar markmið stendur óbreytt frá fyrsta degi – að sameina matargerð menningarheims Indlands við óviðjafnanlegar afurðir Íslands. Við leggjum ávallt áherslu á að gera okkar fornu menningu hátt undir höfði, en leitum þó sífellt leiða til að gera hana að okkar eigin. Saman höfum við staðið af okkur stormana, þökk sé ykkar óbilandi stuðningi. Við erum ævinlega þakklát, auðmjúk og heiðruð yfir því að þið kjósið okkur aftur og aftur.“