„Þegar ég fór að stunda aftur sundlaugar af krafti eftir heimsfaraldur þurfti ég auðvitað að taka með mér handklæði til þerru,“ segir Sveinn Markússon járnlistamaður í Hafnarfirði. Hljómar einfalt en er það ekki:
–
„Hvít og grá þerriklæði eru talrík á heimilinu. Ég asnaðist til að taka almúgagrátt handklæði með, sem ég tróð í lúinn lamínat handklæðarekka Suðubæjarlaugar og fékk mér sprett.
Eftir sprett, pott og sturtu án sápu, ég þvæ mig hátt og lágt fyrir sund, hóf ég þá kúnst að þurrka mig uppi og niðri með mínu gráa, sagði maður við mig, höstulega, „Þetta er mitt handklæði!“
–
Ég ætlaði að malda í móinn, en horfði á handklæðarekkann og sá að þar voru nokkur grá handklæði. Þar sem ég stóð á Adamsklæðunum rétti ég honum það sem ég var með í höndum og hitt klæðið sem eins gat verið mitt eða hans og sagði honum að hann gæti átt þau bæði. Að ég kunni að lofþurrka eins og skarfur!
–
Síðan þá fer ég með retró litrík gleðihandklæði í sund. Ég er gamli skarfurinn með hafmeyju, Barbie, Búnaðarbanka handklæðin. Verum litrík!