HomeGreinarSÖNGELSKIR TVÍBURAR GERA GÖNGUSTÍG Í ÚLFARSFELLI

SÖNGELSKIR TVÍBURAR GERA GÖNGUSTÍG Í ÚLFARSFELLI

Einn vinsælasti göngustígurinn í borgarlandinu liggur eins og þráður frá austurhlíðum Úlfarsfells og alveg upp á efri bunguna. Þar hefur Ferðafélag Íslands komið fyrir útsýnisskiltum og bekk fyrir þau sem vilja varpa mæðinni andartak og njóta útsýnis á þeim mikla palli sem þar er.

Tvíburarnir á fullu í hlíðum Úlfarsfells.
Tvíburarnir á fullu í hlíðum Úlfarsfells.

Þau sem fara oft stíginn, og ganga tröppurnar, sem eru haganlega sniðnar inn í hlíðina, geta átt vona á bræðrum við störf í brekkunni en þeir kasta gjarnan kankvísir kveðju á þau sem fara hjá. Þetta eru þeir Ævar og Örvar Aðalsteinssynir, þúsund þjala smiðir og lífskúnstnerar.

Þeir eiga afmælisdaginn sameiginlegan, enda tvíburar. Stundum ræða þeir heimsmálin við göngufólk, oft annar því þeir eru ekki mjög oft samtímis í brekkunum, og þá er sá sem er við vinnuna á stígnum bara býsna hress og viðræðugóður. Hallar sé fram á rekuna, talar um veðrið og fleira og lagar gleraugun á nefinu.

Svo þegar göngumaður kemur næst og ætlar að halda áfram með spjallið og rifjar upp skemmtilegustu kaflana frá því síðast , þá horfir bara bróðirinn heldur tómur til augnanna á móti og kannast ekki við neitt.

Heyrðu, þú hefur sennilega hitt bróðir minn, ekki mig, mér er sagt að við séum dálítið líkir.“

Stígurinn sem þeir eru alltaf að laga og leggja bræðurnir er oft kallaður Dagatalið meðal þeirra sem fara hann oft – það er nefnilega eitt þrep fyrir hvern einasta dag á árinu.

Jú, jú, þetta eru nákvæmlega 365 tröppur, það var reyndar algjör tilviljun,“ segir Örvar og hlær þegar ég hitti bræðurnar í viðhaldsverkefnum í Úlfarsfellinu og hasta aðeins á hundana mína því þeir vilja líka ræða heimsmálin við bræðurna.

Eruð þið ekki með svona aukaþrep, svona út til hliðar fyrir hlaupársdaginn í febrúar.“

Nei, nei, það þarf ekki, þetta eru 365 tröppur, svona innan ákveðinna skekkjumarka!“

Og aftur er hlegið.

Stikaðar leiðir mjög mikilvægar

Þótt Ferðafélagið hafi verið einstaklega öflugt í að stika gönguleiðir – þá er þessi stígur ekki unnin á vegum FÍ, þótt bræðurnir séu báðir alvanir fararstjórar hjá félaginu. Það eru skátafélagið Mosverjar í Mosó sem leggur stíginn í félagi við Heilsubæinn Mosfellsbæ.

Það var stikuð leið hér árið 2008 sem var farin að slitna mikið og vaðast út,“ segir Örvar og bendir á leifar af gömlu leiðinni. „Þá sáu menn þann kost vænstan að gera göngustíg og tröppur þar sem var brattast. Verkið tók hátt á fimmta ár. Við erum í viðhaldinu núna, erum að bæta og breyta.“

Það ar vafalítið gaman fyrir þá bræður að sjá hversu vel stígnum hefur verið tekið og mjög mörg ganga þessa leið allan ársins hring. Þeirra á meðal sá sem þetta ritar sem fer að minnsta kosti vikulega með hundana sem eru ekki síður glaðir með þá bræður en sá sem lemur hér lyklana.

Þar sem umferð hefur víða aukist eins og hér þarf að gera göngustíga til að vernda landið og stýra umferðinni í örugga og góða slóð,“ segir Örvar og bætir því við að FÍ hafi einmitt gert mikið af stígum og stikað mjög margar gönguleiðir. „Já, sjáfsagt að halda því góða starfi áfram,“ grípur Ævar frammí fyrir bróður sínum. „Ferðafélag Íslands er mikilvægt afl í að gefa almenningi tækifæri til að upplifa eigið land, ekki síst með því að stika leiðir og bæta öryggi.“

Þegar við horfum yfir allt þetta mikla svæði sem tilheyrir Úlfarsfelli, þá er eins og þeir lesi mig, þeir svara spurningunni minni áður en hún sprettur fram á varirnar.

Já, þetta er flott! Það er mjög mikilvægt að þéttbýlisfólk eins og þú hafi auðvelt aðgengi að náttúrulegum svæðum. Á höfuðborgarsvæðinu eru nokkur góð útivistarsvæði en það mætti bæta aðgengi, fjölga svæðum og tengja þau betur saman. Skógræktarsvæði eins og hér er gott dæmi, sem á nokkrum áratugum hafa orðið að frábæru útivistarsvæði en oft vantar betra aðgengi, stíga og merkingar. Margt gott hefur áunnist á síðustu árum og það þarf bara að halda áfram á sömu braut.“

Bræður í fararstjórn

Þeir bræður hafa verið í talsverðan tíma fararstjórar hjá FÍ enda alvanir skátar frá því í den, byrjuðu sjö ára að læra að binda hnúta og tóku skátasöngvana í pásunum. Þeir urðu seinna virkir í Alpaklúbbnum gamla og Hjálparsveit skáta. Þetta ýtti þeim í Ferðafélagið, já og auðvitað líka ástin á útivistinni. Þeir bræður sáu um gönguverkefnið Eitt fjall á mánuði í átta ár ásamt fararstjórn í ýmsum öðrum ferðum, ekki síst þeim þar sem reyndi á fólk og það fékk að bera byrðar í nokkuð erfiðum fjallgöngum.

Núna erum við aðstoðarfararstjórar í gönguhópunum Léttfeti, Fótfrár og Þrautseigur. Við höfum líka verið með göngu- og hjólaferðir sem hafa verið í áætlun FÍ,“ segir Örvar.

Tónelskir tvíburar endurbyggja sæluhús á Mosfellsheiði

Gamlir skátar kannast nær allir við þá bræður, Örvar og Ævar því þeir héldu gjarnan uppi stuðinu í tjaldútilegunum og skátaskálunum í gamla daga en tóneyra þeirra var og er með ólíkindum og gítargripin eru svoleiðis algerlega á tæru. Það var sama hvað óskalög voru nefnd, allt hristu þeir af fingrum fram og meira segja Bach ef beðið var af mikilli auðmýkt. Textarnir flutu svo með vel smurðir. Þeir voru svona hálfgerðir Proclaimers Íslands, en margir muna eftir skosku tvíburunum Craig og Charlie sem sungu sig inn í hjörtu allra með laginu I‘m gonna be. „But, I will walk five hundred miles, and I would walk five hundred more!!“

Þeir hlæja nú bara þegar þetta er fært í tal, en þeir spila samt enn á gítarana sína. Þeir eru samt meira með verkfærin á lofti og áttavitann eða gps-tækið, en handlagnin hefur margsinnis verið virkjuð af Ferðafélaginu. Nú síðast í sæluhúsinu á Mosfellsheiðinni en þeir bræður búa báðir í Mosfellsbæ og þurfa ekki að fara ýkja langt með tól sín og tæki.

Á undanförnum árum höfum við gjarnan farið á gönguskíðum um Mosfellsheiði og komið oft að sæluhúsarústinni við gamla Þingvallaveginn. Þegar FÍ fór að leggja drög að uppbyggingu og endursmíði hússins var haft samband við okkur og við tókum að okkur að stýra verkinu ásamt Bjarka Bjarnasyni.“

Þeir segja þetta ekki í kór, en svona fléttast þessi orð saman í setningar frá þeim báðum.

Bjarkinn“ sem þeir nefna er einn af höfundum Árbók Ferðafélags Íslands árið 2019 sem fjallaði einmitt um Mosfellsheiði en hann reit bókina ásamt Jóni Svanþórssyni og Margréti Sveinbjörnsdóttur, en í bókinni segir frá sæluhúsinu á heiðinni.

Við leggjum áherslu á að endurbyggja sæluhúsið í upprunalegri mynd, en notum nútíma byggingaraðferðir eins og hægt er. Það á eftir að koma í ljós hvernig til tekst, en húsið var reist 1890 og við vitum að margur hefur mátt skríða þar í skjól.“

Það fer býsna vel á því að FÍ endurbyggi sæluhúsið á Mosfellsheiði því félagið skipuleggur ekki bara ferðir og rekur fjallaskála, það nærir líka sögulegar rætur okkar allra með því endurbyggja eða endurnýja söguleg hús eins og þetta á Mosfellsheiði og skálann í Hvítárnesi.

Þeir eru á því bræðurnir að það sé ekki síður gott fyrir sálina að vinna úti í náttúrunni eins og við sæluhúsið og í Úlfarsfellinu en að arka um landið frjáls eins og heimsskautarefur.

Ísland státar af óspilltri náttúru sem er að verða einstæð á heimsvísu og verður að vernda. Aðgengi að óspilltri náttúru styður við betri heilsu bæði andlega og líkamlega fyrir utan að okkur takist að vernda náttúruna, gróður og dýralífið.“

Og svo held ég göngunni áfram og þeir halda áfram sínu striki í hlíðinni á Úlfarsfellinu, bræðurnir Örvar og Ævar, söngelskir tvíburar sem slá taktinn með hamarshöggum.

TENGDAR FRÉTTIR

RAUÐA SLAUFAN SLÆR Í GEGN

Rauða slaufan kom sterk inn um jólin og á eftir að slá enn betur í gegn á nýju ári. Höfundar eru stelpurnar í Handverkskúnst...

LAUFEY LÍN Í KRINGLUNNI

Tónlistarstjarnan Laufey Lín var með systur sinni og móður í Kringlunni í dag að kaupa jólagjafir. Það stirndi af þeim enda stjörnur. https://www.youtube.com/watch?v=Ad5WSuSVp-U

LUNDAR ÚR KRISTAL Á LAUGAVEGI

Gullsmíðaverkstæði Jóns & Óskars á Laugavegi selur lunda úr kristal og túristarnir kaupa án þess að hugsa sig um. Kristallundarnir eru frameiddir hjá Swarosk sem...

STEINGRÍMUR Í EDEN

Það er völlur á Steingrími St.Th. Sigurðssyni listmálara (1925-2000) á þessari mynd sem tekin var í aldingarðinum Eden í Hveragerði á meðan sá staður...

HROLLVEKJANDI PÚSLUSPIL Í PLATI

Mörgum brygði í brún að fá 12.000 bita púsluspil í jólagjöf þar sem myndin er bara blár himinn og hálft tungl. Tæki líklega öll...

PLANTAN Á NJÁLSGÖTU Í NORRÆNA HÚSIÐ

1. febrúar 2025 mun kaffihúsið Plantan taka við og opna bistró veitingastað í Norræna húsinu.  Plantan bistró mun bjóða upp á lítinn árstíðarbundin matseðil...

JÓLAGJÖFIN FYRIR ÞÁ SEM VILJA EKKERT

Sumir segjast ekki vilja neitt í jólagjöf en fá svo alltaf eitthvað. Því allir verða að fá eitthvað. Þá er gjöfin hér í fallegu hvítu...

INGIBJÖRG SÓLRÚN SJÖTUG Í HÖRPU

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, stjórnmálakona um áratugaskeið, heldur upp sjötugsafmæli sitt í Hörpu síðdegis á Gamlársdag sem er afmælisdagur hennar. Afmælið er fyrir boðsgesti og...

SUNDLAUGARASK Í REYKJAVÍK

Loka þarf Árbæjarlaug á föstudaginn, 20. desember, vegna viðhalds. Þá er rask á opnunartíma í Vesturbæjarlaug vegna niðurrifs á saunaklefum. Nýlega hófst fyrsti fasi í...

STÓRVALSSTOFA Í SAMKEPPNI VIÐ KJARVALSSTOFU

Til stendur að opna Stórvalsstofu í rúmgóðum kjallara í Húsi Máls og menningar á Laugavegi sem er að verða einnn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna í...

LOKSINS, LOKSINS KORT Í STRÆTÓ

Loksins, loksins! Tók ekki nema 18 ár," segir Ármann Kr. Ólafsson fyrrum bæjarstjóri í Kópavogi í tilefni frétta um að nú sé loks hægt...

FATLAÐUR HRINGDI Í PÍRATA – ENGINN SVARAÐI

Sá sem síðastur yfirgaf kosningaskifstofu Pírata á Hverfisgötu gleymdi að slökkva ljósin og þau loga enn. Fatlaður maður sem átti þar leið hjá rak...

Sagt er...

"Jólamaturinn minn var nýtt lambalæri pg sætar kartöflur og kjötið smá rautt og bráðnaði í munni. Nógu gott fyrir mig," segir Hafdís Huld Eyfeld...

Lag dagsins

Bing Crosby í jólaskapi með Lundúna sinfóníunni. https://www.youtube.com/watch?v=IOkyBqGw2Wg