Ekki sér fyrir endann á ástarævintýrum fjölmiðlaolígarksins Ruperts Murdochs. Hann sté niður úr stjórn risa-fyrirtækjasamsteypu sinnar 92 ára en sér aldurinn ekki sem fyrirstöðu til að efna til nýrra ástarsambanda.
Fyrir nokkrum dögum barst tilkynning frá skrifstofu hans um að hann hyggðist kvænast núverandi kærustu, Elenu Zhukova, 67 ára, líffræðingi sem hann byrjaði að ,,deita“ síðastliðið sumar. Þetta yrði fimmta hjónaband Murdochs en hann skildi við Jerry Hall (fyrrum eiginkonu Mick Jaggers) árið 2022. Í kjölfar þess átti hann í sambandi við Ann Lesley Smith, tannfræðing, en sleit því skyndilega eftir tvær vikur.
Murdoch kynntist núverandi kærustu í gegnum þriðju eiginkonu sína, Wendi Deng, sem hann á tvær dætur með en þau skildu eftir meint framhjáhald hennar með Tony Blair. Væntanlegt kvonfang hans kom til Bandaríkjanna frá fyrrum Sovétríkjunum rétt áður en þau liðu undir lok. Fyrrverandi eiginmaður hennar, Alexander Zhukov, varð milljarðamæringur með fjárfestingum í orkugeiranum en þó ekki í Hitaveitu Suðurnesja svo vitað sé. Hann er nú breskur ríkisborgari og býr í London. Dóttir þeirra Elenu og Alexanders, Dasha, er öflug í góðgerðastarfssemi en hún var, þar til 2017, gift rússneska olígarkanum Roman Abramovich. Ætla má af þessum staðreyndum að Elena sé ekki að giftast til fjár og að Rupert á tíræðisaldri búi enn yfir nægum sjarma til að laða að sér konur. Auk þess sem sækjast sér um líkir.