Grillið á Sögu var lengi rómað fyrir gæði í mat og mikinn lúxus með útsýni yfir sundin blá og borgina alla og þar hafa sest að snæðingi nokkrar af skærustu stjörnum listasögunnar sem áttu náttstað á hótelinu. Þar gerist líka ein vinsælasta sena íslenskrar bókmennta- og kvikmyndasögu þar sem sögupersónur Einars Más Guðmundssonar úr skáldverkinu Englar alheimsins mæta og gera sér glaðan dag.
Grillið er nú partur af Háskóla Íslands eins og flest vita og mörg sem eiga leið um Vesturbæinn og Melana hafa rekið augun í mikið hús í undarlegum stíl sem liggur eins og mara ofan á Sögu og hefur eiginlega étið Grillið með gleri og stáli. Það hafa jafnvel borist fyrirspurnir til HÍ um hvort þetta nýja furðurhús eigi varanlegan samastað á þaki Sögu.
„Nei, alls ekki,“ segir Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs við Háskóla Íslands. „Það er verið er að endurbyggja Grillið í upphaflegri mynd. Til þess að hægt væri að vinna að þessu í vetur var nauðsynlegt að byggja skýli yfir Grillið svo hægt væri að athafna sig óháð veðri og vindum,“ segir Kristinn sem ræðir á vef HÍ um stöðu framkvæmda á Sögu en þangað flytur Menntavísindasvið skólans í haust.