VIÐ ERUM EKKI ÞURFALINGAR OG AFÆTUR

  “Við sem greiddum í lífeyrissjóði sýndum fyrirhyggju til að geta verið fjárhagslega sjálfstæð á efri árum,” segir Wilhelm Wessman, landsþekktur veitingastjóri á Hótel Sögu og víðar um áratugaskeið, nú baráttumaður í Gráa her eldri borgara:

  “Þessa fyrirhyggju gera ráðamenn þjóðarinnar lítið úr og hika ekki við að kalla okkur eldriborgara þurfalinga og afætur á kerfinu, kerfi sem við byggðum upp og borguðum fyrir.

  Ráðamenn þjóðarinnar hafa talið fólk á að safna í lífeyrissjóði en dregið síðan skipulega úr stuðningi almannatryggingakerfisins þannig að ávinningur fólks af því að safna í lífeyrissjóði er stórlega skertur.

  Ein birtingarmynd þess er að segja að fyrsta stoð almannatryggingakerfisins sé lífeyrissjóðirnir og TR eigi eingöngu að vera öryggisnet til að grípa þá sem ekkert hafa.
  Eldri borgarar hafa mótmælt mjög ákveðið þeim breytingum sem gerðar voru á almannatryggingakerfinu í október 2016 og tóku gildi í ársbyrjun 2017.
  Sérstaklega hefur verið mótmælt hjá Gráa hernum þeim ákvæðum sem nánast afnámu öll frítekjumörk og komu á 45% skerðingu vegna annarra tekna gagnvart ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.

  Skipulagsskrá fyrir málsóknarfélag Gráa hersins sem 33. félög eldriborgara á landinu standa að er nú til lokameðferðar hjá sýslumanni og fáum við hana úr þinglýsingu á næstunni.”

  Auglýsing