VARANLEG BÚSETA LEYFÐ Í SÖGUFRÆGU HÚSI

  Sóleyjargata 25 er sögufrægt hús. Í því eru sex íbúðir en Kennarsambandið keypti það árið 2002 og breytti í orlofsíbúðir. Það var upphaflega byggt fyrir Richard Thors og fjölskyldu hans árið 1938 og þá sem einbýlishús.

  Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í maí 2002 barst nefndinni kæra frá íbúum á Sóleyjargötu 23, Fjólugötu 21 og Fjólugötu 23 vegna breytinga á húsinu í orlofsíbúðir. Engu að síður var veitt leyfi fyrir breytingunum og þær gerðar.

  Aftur kemur Sóleyjargata 25 í bækur skipulagsfulltrúa Reykjavíkur í síðustu viku en þar er varanleg búseta heimil í húsinu. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 6. mars 2020 var lögð fram fyrirspurn Jóhönnu Helgu Halldórsdóttur um að aflétta kvöð um að óheimilt sé að vera með varanlega búsetu í húsnæðinu að Sóleyjargötu 25 ásamt því að heimilt verði að breyta notkun/skráningu hússins úr einbýlishúsi í fjölbýlishús.

  Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnisstjóra og er nú lögð fram að nýju ásamt umsögn skipulagsfulltrúa dags. 27. mars 2020. Umsögn skipulagsfulltrúa dags. 27. mars 2020 var samþykk.

  Kennarasambandið mun hafa sett húsið á sölu enda þarf að gera miklar breytingar á því.

  Auglýsing