VALKYRJU AFLÝST

    Steinunn Birna óperustjóri og valkyrja á fleygiferð.

    Vegna heimsfaraldursins og afleiðingum hans hefur fyrirhugaðri uppfærslu á Valkyrjunni eftir Wagner verið aflýst. Uppfærslan var fyrirhuguð í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands á Listahátíð í Reykjavík og átti að fara fram í Hörpu 24. og 26. febrúar 2022. Staða faraldursins hér heima og erlendis gerir það að verkum að ekki er mögulegt að sýna óperuna við þessar aðstæður enda um mjög fjölmenna og umfangsmikla uppfærslu að ræða þar sem listamenn koma víða að.

    “Við gerum okkur vonir um að hægt verði að sýna óperuna, sem þegar hefur verið frestað í tvígang, við annað tækifæri í framtíðinni, en það mun þá verða tilkynnt sérstaklega,” segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri.

    Allir aðgöngumiðar verða endurgreiddir að fullu og endurgreiðast sjálfkrafa hafi þeir verið greiddir með greiðslukorti.

    Orðið valkyrja er samsett úr valur, sem þýðir hinir vopndauðu, og kyrja, sem er dregið af sögninni að kjósa, og merkir því sú sem velur menn til þess að falla. Þær eru tengdar Óðni, svo sem vænta má, þeysa um loftin í fullum herklæðum og eiga annríkt. Þær ganga einnig um beina í Valhöll. Sumar valkyrjur eiga samneyti við menn, eru ástmeyjar þeirra, en undantekningalaust hafna þeir í Valhöll á sínum efsta degi. Enginn átrúnaður var tengdur valkyrjum.

    Auglýsing