UMDEILDUR RÍKISFORSTJÓRI

    Póstur úr Leifsstöð:

    Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia á það til að stíga í drullupolla við stjórn á þessu hratt vaxandi ríkisfyrirtæki, sem rekur alla flugleiðsögu og flugvelli á Íslandi. Þar eru Keflavíkurflugvöllur og Flugstöð Leifs Eiríkssonar lang umsvifamest.

    Forstjórinn bolaði Kaffitári og Icewear út úr flugstöðinni og tók önnur fyrirtæki inn í staðinn. Bæði Kaffitár og Icewear sökuðu Isavia um leyndarhyggju og skort á rökstuðningi fyrir valinu og hafa staðið í kærumálum sem enn eru ekki til lykta leidd. Litlu munaði að bókabúð Eymundssonar yrði hent út úr flugstöðinni og í staðinn kæmi WH Smith, þekkt bresk flugstöðva-“bókabúð” sem selur meira af sælgæti en bókum og blöðum. Það nýjasta er svo hávær mótmæli frá ferðaþjónustunni vegna hárrar greiðslu sem flugstöðin ætlar að taka af rútum sem sækja farþega.

    Ferðafólk kvartar sáran undan mjög hárri verðlagningu á veitingum í flugstöðinni og meira að segja í “fríhöfninni” er verðlag á mörgum vörum hærra en í Bónus eða Heimkaupi. Dýrara er að leggja bíl við flugstöðina en á dýrustu stöðumælum í miðborg Reykjavíkur. Dagskipan forstjórans er að Isavia verði að græða sem mest á þeim sem um flugstöðina fara.

    En það er líka hægt að stíga í drullupolla undir skrifborðinu, sérstaklega ef menn missa sjónar á því að þó gróðinn sé mikill, þá vinna þeir samt hjá ríkisfyrirtæki.

    Ekki er langt síðan Kastljós ríkisútvarpsins afhjúpaði óleyfilegar greiðslur Isavia á fargjöldum fyrir eiginkonu Björns Óla forstjóra. Alls hafði ríkisfyrirtækið greitt fyrir 10 ferðir eiginkonunnar, sem þó starfar ekki hjá Isavia.

    Fyrst þegar Kastljós grennslaðist fyrir um þetta neitaði Isavia að þessar greiðslur hefðu átt sér stað. Að lokum var viðurkennt að ríkisfyrirtækið hefði borgað ferðirnar. Sú skýring var gefin að Björn Óli þyrfti að hafa eiginkonuna með sér vegna viðburða sem hann þyrfti að sækja erlendis. Þegar Kastljós fylgdi þessu eftir gaf þáverandi stjórnarformaður Isavia allt aðrar skýringar, að greitt hefði verið fyrir ferðir eiginkonunnar til að bæta Birni Óla upp skert sumarleyfi vegna annríkis.

    Ekki bætti svo úr skák að þegar Úrskurðarnefnd um upplýsingamál var að skoða þessi mál þá kom fram hjá Isavia að þar væri engar upplýsingar að finna um utanlandsferðir stjórnar og framkvæmdastjórnar félagsins né greiðslur af viðskiptakorti fyrir slíkar ferðir. Við eigendur fyrirtækisins – íslenskir skattgreiðendur – vonum að það sé ekki dæmigert fyrir ástandið á bókhaldi þess.

    Auglýsing