TRIXIN Í IKEA (1) – VESEN VERÐUR VERÐMÆTI

  "Við lifum bara einu sinni. Þriðjungur lífsins er vinna. Án ástríðu og ánægju verður vinnan helvíti." Ingvar Kamprad stofnandi IKEA.

  IKEA rýnirinn skrifar:

  Trúi því hver sem vill, en vesenið við að fara í IKEA og setja húsgögnin sjálfur saman eykur tilfinningu viðskiptavinarins fyrir verðmæti þess að versla í þessari stærstu húsgagnaverslun í heimi. Þetta er kallað IKEA-effektinn – því meira sem þú þarft að hafa fyrir einhverju, þess hærra verður virði þess íhuga þínum.

  Til að byrja með þarf að hafa þó nokkuð fyrir því að fara í IKEA verslun, hvar sem er í heiminum. Þær eru yfirleitt staðsettar töluvert í burtu frá helstu búsetusvæðum. Það tekur tíma að fara þangað. Þegar inn er komið taka við ranghalar af merktum slóðum í gegnum allar deildir verslunarinnar. Það tekur tíma og því meiri tíma sem þú eyðir á staðnum, þess betur kanntu að meta ákvarðanir þínar – af þeirri ástæðu að það fór svo mikill tími í leiðangurinn.

  Og svo allur tíminn sem fer í að setja húsgögnin saman. Þú nánast smíðar þau með IKEA og þar með verða þau húsgögnin „þín“ og metur þau betur fyrir vikið. Ekki spillir svo fyrir að þú fékkst húsgögnin á lægra verði en annars staðar.

  Auglýsing