TRIXIN Í COSTCO (6) – HVER FER Í COSTCO AÐ KAUPA MJÓLK?

  Costco rýnirinn skrifar:

  Costco heldur fast við að kalla sig heildsölu þó fyrirtækið sé smásali út í gegn. Heildsala hlýtur alltaf að vera ódýrari, ekki satt? Jú, en heildsalar selja ekki til einstaklinga, aðeins til endursölu hjá smásölum. En Costco er slétt sama þó merkingin sé afvegaleiðandi, því þetta er allt spurning um upplifun viðskiptavinarins. Costco vill að viðskiptavinurinn líti á verslunina sem hagstæðan valkost á vönduðum vörum.

  Fáir heildsalar eru líka með pylsur, pizzur og ís til sölu á lágu verði við útganginn. Tilgangurinn með því er að hamra enn einu sinni á því að í Costco fái fólk góða vöru á lágu verði.

  Á einu sviði er Costco á Íslandi þó alvöru heildsala, þ.e. með áfengi. Þar stendur Costco sig afar vel í því að bjóða bjór og léttvín á lágu verði. Ekki fer sögum af því að barir og veitingastaðir skili þeim ávinningi til viðskiptavina. Í öðrum löndum er áfengið í boði fyrir alla viðskiptavini Costco.

  Verðsamanburður milli Costco og annarra verslana hér á landi er afar erfiður, því Costco er að mestu leyti með eigin innflutning, önnur tegundarnúmer eða sérpakkaða innlenda framleiðslu. Það eru helst íslenskrar mjólkurvörur sem bera má saman og þar er Costco engan veginn með lægra verð. En hver fer svo sem sérstaklega í Costco til að kaupa mjólk?

  Trixin í Costco (5)

  Auglýsing