TOMMI UM JÓNAS

  Athafnamaðurinn og lífskúnstnerinn Tommi á Hamborgarabúllunni minnist Jónasar Kristjánssonar ritstjóra sem er nýlátinn:

  Árið 1983 var gefin út frábær bók eftir Jónas sem hét Heimsborgin London. Þarna voru gagnlegar upplýsingar fyrir ferðamenn, meðal annars var þar talað um allskyns veitingahús og hótel sem Jónas hafði prufað og mælti með. Ekki veitti af þar sem það var ekkert öruggt með gæði veitngastaða í London á þessum tíma en London var þá rétt að byrja að hasla sér völl á  vettvangi veitingahúsa.

  Þar sem Jónas var viðurkenndur mathúsagagnrýnandi sem hafði bæði vit og skoðun á þessum hlutum þá tókum við Úlfar Eysteinsson þessa bók með okkur í vikuferð með konunum okkar til London í águst 1983. Við vorum oft búnir að prufa áður ýmsa staði sem voru æði misjafnir.   

  Þarna var t.d. kafli sem hét Umhverfis jörðina á 30 veitingahúsum. Við fórum víða og vorum alltaf ánægðir. Svo kom að  amerískum veitingahúsum og þá sagði Jónas: Ef þið farið upp á hornið á Old Park Lane og Piccadilly þá komið þið að Hard Rock Cafe og ef ykkur langar í góðan hamborgara með frönskum, kartöflum, mjólkurhristing og gráðosta sósu þá er þetta staðurinn til að fara á.   

  Við komum þangað um tvöleitið í eftirmiðdaginn og það var löng biðröð fyrir utan. Ég var á þessum tíma nýbúinn að selja yfir milljón hamborgara og hélt að ég vissi allt um hamborgara svo ég ætlaði nú ekki að fara að standa í biðröð um miðjan dag. En lét þó til leiðast. Biðin tók um það bil 45 mínútur en þegar við vorum komin inn þá stóð ég agndofa úti á miðju gólfi og dáðist að öllu sem ég sá.  Þetta var málið, þetta ætlaði ég sko að gera á íslandi. Þetta var eins og ævintýri fyrir mig, íslenskan sveitamanninn. 

  Það tók mig rúmt ár að ná í samning við Hard Rock Cafe sem var undirritaður 3. september 1984. 

  Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim eftir það var að fara heim til Jónasar út á Seltjarnarnes og þakka honum fyrir að hafa kynnt mig fyrir þessum dásamlega stað. Síðan þá hefur leið okkar legið saman öðru hvoru og alltaf farið vel á með okkur enda er ég honum ævinlega þakklátur. 

  Ég hefi lesið jonas.is árum saman og á eftir að sakna hans og skemmtilegri lýsingu hans á samfélagi okkar og stjórnmálum. 

  Ég votta fjölskyldu og nánustu vinum samúð mína. 

  Hvíl í friði Jónas minn góður.

  Auglýsing