Viðskipta – og tískudeildin:
—
Í uppsiglingu er stríð á tískumarkaðinum, keðjan New Yorker er að opna í Kringlunni á morgun og Smáralind viku síðar. Er að berjast um sama kúnnahóp og H&M og Jack og Jones og Lindex.
Hér er um að ræða alþjóðlegt tískufyrirtæki, NEW YORKER, sem hefur höfuðstöðvar sínar í Brunschweig í Þýzkalandi. Innkoma þess á íslenskan markað hlýtur að teljast nokkur tíðindi en það opnar í svæði því sem Zara var með í Kringlunni og svo viku seinna í Smáralind.
Hér er um að ræða öflugt fyrirtæki sem sérhæfir sig í tískuvöru fyrir ungt fólk. Fyrirtækið rekur meira en 1000 verslanir í 40 löndum. Á 40 árum hefur fyrirtækið orðið eitt af stærstu tískumerkjum í heimi og hjá fyrirtækinu starfa nú um 18.000 manns.
Það er semsagt barist um hvernig Íslendingar á aldrinum 18 til 35 ára klæða sig. Og sá slagur er tekinn í dýrasta húsnæði landsins.