ÞRJÚ HJÓL UNDIR BÍLNUM

    Jóna Sigrún Harðardóttir lenti í martröð allra ökumanna þegar allt í einu voru bara þrjú hjól undir bílnum og það á fleygiferð. Hún segir:

    Jóna Sigrún.

    “Þar sem ég keyrði heim úr Kramhúss-dans-spriklinu mínu, mjög svo afslöppuð og var að nálgast nýja hringtorgið á leiðinni út á Álftanes tók „tröllið„ jeppinn að láta mjög undarlega og mín fyrsta hugsun var hvort ég væri virkilega að keyra upp á brún og grjót í vegarkantinum. Mér tókst að stoppa bílinn áður en ég fór í hringtorgið og vippaði mér út og hringinn til að skoða hvað væri um að vera. Við mér blasti ótrúleg sjón. Hægra framhjólið var farið af í heilu lagi og hafði rúllað undir stigbrettið og sat þar fast, aftara dekkið í lausu lofti.”

    Jóna Sigrún brást við með því að hringja í eiginmanninn sem aftur hringdi í Krók og allt fór vel:

    “Meðan ég beið eftir hjálpinni, upplifði ég ótrúlegan náungakærleika. Umferð var nokkuð mikil, en þetta var upp úr kl. 19.00. Ótal bílar stoppuðu og fólk spurði hvort ég þyrfti aðstoð. Þetta kom mér satt að segja á óvart miðað við umræðu og skrif þar sem talað er um hið gagnstæða. Takk fyrir góða fólk, takk ungi vélvirki sem gafst þér tíma til að sinna mér og taka myndir og senda mér, takk ungi maður sem vinnur á dekkjaverkstæði, takk, þú sem lést mig virkilega finna umhyggju þína. Flest þetta fólk var á leiðinni út á Álftanes, þar býr greinilega gott fólk.”

    Auglýsing