ÞJÓFNAÐUR Í ÞJÓÐLEIKHÚSI

    “Nú um helgina var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu sýning á texta sem leikhúsið kynnir sem “leikgerð” Þorleifs Arnar Arnarssonar á Rómeó og Júlíu Shakesperes. Sýningin hefur svo sem ekki mikið að gera með verk skáldsins, án þess ég ætli að ræða það frekar að sinni; set kannski hér inn nokkra punkta þar að lútandi þegar betur stendur á,” segir Jón Viðar Jónsson Leikhúsgagnrýnandi með stóru Elli:

    “Höfundar umrædds texta eru Harpa Rún Kristjánsdóttir og Jón Magnús Arnarson sem er bróðir Þorleifs Arnars. Og kem ég þar að því sem er erindið með þessari færslu; að benda á að á tveimur stöðum í sýningunni er fléttað inn þremur af þríhendunum úr Tímanum og vatninu eftir Stein Steinarr ÁN þess að hans sé nokkurs staðar getið, hvorki á sviðinu, í leikskrá né á heimasíðu leikhússins (þar er hins vegar vendilega getið höfunda tveggja sönglaga sem flutt eru í sýningunni). Þetta gengur EKKI, gott leikhúsfólk. Á textum Steins (sem dó 1958) er enn höfundarréttur og að sjálfsögðu einnig sæmdarréttur sem tekur við eftir að höfundarréttur fellur úr gildi, sjötíu árum eftir lát höfundar. Þetta heitir að skreyta sig með stolnum fjöðrum, og er ekki samboðið neinu leikhúsi, hvað þá þjóðleikhúsi. Ég skora því á stjórn leikhússins að kippa þessu hið snarasta í liðinn; annað hvort að taka textana úr sýningunni (sem væri sjálfsagt einfaldast) eða koma því skýrt á framfæri hvaða verk eftir hvaða höfund þarna er farið með.”

    Athugasemd frá Jóni Viðari: Bendi þér á að Þorleifur Örn hefur beðist afsökunar og lofað leiðréttingu. Mæli með að þú nefnir það.

    Auglýsing