ÞETTA ER ÞORLÁKSMESSUKALLINN

  Þorláksmessa er einn af þessum toppdögum í íslensku almanaki, yfirkeyrður af spennu, eftirvæntingu og fjárútlátum sem aldrei fyrr.

  Þorláksmessan er kennd við Þorlák Þórhallsson sem páfinn í Róm gerðir að verndardýrlingi Íslands – hvorki meira né minna:

  Þorlákur helgi Þórhallsson var biskup í Skálholti 1178–1193. Hann var fæddur 1133 að Hlíðarenda í Fljótshlíð. Hann hlaut menntun í Odda hjá lærdómsmanninum Eyjólfi presti, syni Sæmundar fróða, og vígðist ungur til prests.

  Þorlákur hélt utan til náms og var sex ár (1153–1159) í París og Lincoln. Í námi sínu erlendis kynntist hann bæði siðbótarhreyfingu klaustranna og nýjungum í kirkjurétti.

  Eftir utanförina var hann fyrst prestur í Kirkjubæ á Síðu, uns hann varð príor 1168 og síðar ábóti í nýstofnuðu klaustri í Þykkvabæ í Veri, hinu fyrsta á Íslandi af reglu Ágústínusarmunka.

  Kjörinn biskup í Skálholti
  Á alþingi 1174 var Þorlákur kosinn biskup í Skálholti í stað Klængs Þorsteinssonar. Þorlákur fór ekki utan til vígslu fyrr en 1177 og var vígður til biskups í Niðarósi 2. júlí 1178. Hann var biskup í Skálholti til dauðadags, 23. desember 1193.

  Efldi kirkjustarf á Íslandi
  Þorlákur átti mikinn þátt í því að efla kirkjuvald á Íslandi. Kröfur hans um forræði kirkjueigna og tíunda og um almenna siðbót í hjónabandsmálum mættu mikilli mótspyrnu íslenskra höfðingja.

  Tekinn í dýrlingatölu
  Barátta Þorláks biskups fyrir hreinlífi landsmanna og málstað kirkjunnar stuðlaði að því að hann komst í tölu dýrðarmanna. Fljótlega eftir lát hans fór orð af helgi hans og voru bein hans tekin úr jörðu 20. júlí 1198. Á alþingi 1199 voru fyrst lesnar upp kraftaverkasögur af Þorláki og dánardagur hans síðan lögtekinn messudagur. Þorláksmessa á sumar, upptökudagur beina hans, var lögtekinn 1237. Á kaþólskum tíma voru yfir 50 kirkjur helgaðar heilögum Þorláki og aðeins Pétri postula, Maríu og Ólafi helga voru helgaðar fleiri kirkjur en honum. 14. janúar 1984 lýsti Stjórnardeild sakramenta og guðsdýrkunar í Páfagarði því yfir að Þorlákur helgi væri verndardýrlingur Íslands, með samþykki Jóhannesar Páls II. páfa.

  Auglýsing