Kennarasamband Íslands stendur frammi fyrir því að sjúkrasjóður sambandsins tæmist á næstunni verði ekki gripið til aðgerða.
Kennarar hafa fengið tilkynningu þar um:
Sá tími sem félagsmenn eiga rétt á að fá greidda sjúkradagpeninga verður skertur um 25% frá og með 1. desember 2017. Þetta þýðir að félagsmaður sem fram að þessu hefur átt rétt á greiðslu í tólf mánuði á eftir breytingu rétt til greiðslu í níu mánuði. Félagsmaður sem átti sex mánaða rétt mun eftir breytingu eiga rétt á greiðslum í fjóra og hálfan mánuð o.s.frv.
Ástæðan fyrir breytingunni er að síðustu misseri hefur orðið stöðug aukning í útgreiddum sjúkradagpeningum en útlit er fyrir að sú þróun sé ekki á enda komin. Sjóðurinn er í dag rekinn með tapi og verði ekkert að gert klárast eigið fé hans á næstu misserum. Stjórn Sjúkrasjóðs KÍ og stjórn KÍ töldu því óhjákvæmilegt að grípa inn í en hafa vísað málinu til umræðu og umfjöllunar á næsta þingi KÍ, sem fram fer í apríl á næsta ári. Ennfremur er til skoðunar að setja inn í kröfugerð í komandi kjaraviðræðum, að greiðslur inn í sjóðinn verði hækkaðar.
Óljóst er hvað veldur aukinni ásókn í sjúkradagpeninga sjóðsins, en þó er ljóst að aukið álag og þar með aukin veikindi kennara hafa þar mikið að segja.