SVONA ER AÐ VERA ATVINNULAUS

  Henrý Þór er að sogast ofan í svarthol kerfisins í atvinnuleysi.

  “Kenning: Fólk sem heldur að atvinnuleysisbætur sem þú getur lifað á letji þig í að leita að vinnu hefur aldrei prófað að vera atvinnulaust. Það sem virkilega drepur þig er þegar þú kemst í fjárhagslega holu og finnur að þú yrðir amk 6 mánuði á fullum launum að komast á 0,” segir Henrý Þór, landsþekktur skopmyndateiknari og dregur svo upp dökka en sannfærandi mynd af ástandinu:

  Þegar ég varð atvinnulaus þurfti ég að velja og hafna að borga reikninga. Þ.á.m. var frístund sem var rukkuð um hásumar. Sem varð til að barnið mitt komst ekki að á frístund haustið eftir því pabbi fátæki átti ekki fyrir reikningum. Þetta er Reykjavíkurborg rekin af jafnaðarfólki.

  Þegar ég varð atvinnulaus þá brotnuðu gleraugun mín. Ég sé ekkert án þeirra og keypti því ódýr gleraugu og fékk styrk til þess frá lífeyrissjóðnum úr sjóði sem ég borgaði í. Vinnumálastofnun leit á það sem tekjur og skerti bætur. Ég borðaði núðlur þann mánuð.

  Þegar ég varð atvinnulaus fékk ég skyndilega miklu meiri póst en venjulega. Oft komst ekki mikið meira í kassann. Allskonar gluggapóstur með ítrekunum og aðvörunum til að láta manneskju sem leið mjög illa líða verr.

  Þegar ég varð atvinnulaus frestaði ég greiðslum á hlutum sem fóru í hnút og ég varð að gera dómssátt um. Ég gat borgað 120þ og klárað dæmið eða gert sátt um að borga mun hærri upphæð (~300) en búta hana niður. Það er dýrara að vera fátækur, sjáðu til. Þessir hlutir lentu síðan upp á kant við tilhneigingu mína til að borða mat. Og ég lenti á vanskilaskrá út af fáránlega lágri upphæð, um 60þ sem hefðu alveg eins getað verið 12 milljónir á þeim tíma. Það er erfitt að vera upplitsdjarfur, vel undir búinn, og hress í starfsviðtölum þegar þú sefur ekki á nóttunni af því að þú finnur að þú gætir í rauninni endað á götunni og norræna velferðarkerfið myndi bara yppa öxlum.

  Þegar ég varð atvinnulaus var maður skikkaður á námskeið sem virtust öll ganga út á að kynna manni fyrir möguleikanum á að flytja úr landi. Þar sat 35 ára tveggja barna faðir við hlið 18 ára barns og fékk sömu ræðuna (og sömu bæturnar).

  Auglýsing