STOPPAÐI SIGURPLAST KAUPIN Á ARION?

  Hlerað í fjármálaheiminum:

  Sterkur orðrómur er á kreiki um að umræðan um gjaldþrotamál Siguplasts hafi átt sinn þátt í því að lífeyrissjóðirnir ákváðu að kaupa ekki 10 prósenta hlut í Arion banka.

  Sjónvarpsstöðin Hringbraut hefur að undanförnu fjallað um framferði Arion banka í tengslum við gjaldþrot Sigurplasts. Á Facebook hefur umræðan síðan haldið áfram og sérstök síða stofnuð um hana. Tugþúsundir fésbókarnotenda hafa fylgst með umræðunni og tjáð sig sterklega.

  Lífeyrissjóðirnir hafa flestallir markað sér stefnu um siðferðislega ábyrgar fjárfestingar, þar sem meðal annars er tekið tillit til félagslegra málefna, spillingar og lögbrota. Sjóðirnir vilja ekki tengjast vafasömum fyrirtækjum sem ganga gegn eðlilegu siðferði.

  Umfjöllunin um meðferð Arion banka á fyrrum eigendum Sigurplasts spratt upp á viðkvæmasta tíma, akkúrat þegar lífeyrissjóðirnir voru að taka lokaákvörðun um hvort kaupa skyldi í bankanum. Áhrif þessarar umræðu má lesa á milli línanna í viðtali Morgunblaðsins við framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þar segir hann að skort hafi á framtíðarsýn stjórnenda Arion banka. En svo bætir hann við: “Það hafi verið meðal ástæðna þess að sjóður­inn ákvað að kaupa ekki hlut í Ari­on banka.”

  Með öðrum orðum, afkoma og framtíðarsýn bankans eru klárlega ekki það eina sem hafði áhrif á ákvörðun lífeyrissjóðanna að verða ekki hluthafar í Arion banka.

  Auglýsing