Þorsteinn Ásgeirsson, Steini pípari, svarar hér Tómasi Guðbjartssyni, landsþekktum hjartalækni, sem beitir sér í ræðu og riti gegn væntanlegri Hvalárvirkjun sem skekur samfélagsumræðuna þó fæstir viti út á hvað hún gengur:
—
Tómas Guðbjartsson læknir ritar grein í Fréttablaðið nýlega til að lýsa andúð sinni á Hvalárvirkjun. Þeir sem berjast fyrir því að halda fáförnum stöðum bara fyrir sig og þá fáu útvöldu sem eiga dýra jeppa og fráar fætur til að ferðast um landið svífast einskis til að ná fram markmiðum sínum.
Tómas fullyrðir m.a. að fossarnir nánast hverfi við virkjunina, sem stenst einhvern hluta árs og e.t.v. í mjög sérstökum þurrkasumrum. Sveitarstjórinn fullyrðir að hans sýn á málið standist ekki. Það sem styður fullyrðingar sveitarstjórans eru eðlilegar öryggisráðstafanir í slíkri virkjun. Ef vatnið er nýtt til fullnustu í góðum vatnsárum er ekkert rekstraröryggi þegar rigningin er minni en í meðalári.
Maður sem hefur þá menntun sem hann hefur og hefur reynst mjög klár í sínu fagi hlýtur að hafa greind til að sjá þetta. Því verður að telja þetta vísvitandi blekkingar. Þá tekur hann undir blekkingar margra umhverfissinna sem segja að mikill gróði verði af því að virkja ekki. Hvernig í ósköpunum verður allt í einu mikill straumur manna á stað sem er nánast óaðgengilegur í dag nema fáum.
Tómast er í vel launaðir stöðu og er sagður mikill fjallamaður. Hann hlýtur að eiga gott farartæki og fráar fætur, nokkuð sem aðeins ákveðinn hluti manna getur státað af. Slíkir menn hafa haft möguleika á að heimsækja þennan stað og er gróði heimanna ekkert óskaplegur. Hvaða aðgerðir á að gera til að hagnaður af þessum stað aukist til svo mikilla muna að hann jafnist á við tekjur af virkjun?
Enn virðist Tómas vísvitandi vera að blekkja menn. Hann nýtur virðingar vegna menntunar sinnar og greindar og einhverjir fáfróðir heimamenn gætu tekið hann trúanlegan. Þeir sitja uppi með sárt enni þegar gróðin sem Tómas lofar kemur ekki. Til að breytingar verði verður að breyta einhverju. Vill Tómas leggja malbikaðan veg þarna norður eftir Ströndunum. Ég er viss um að hann segir nei. Hann vil ljúga að heimamönnum að einhver mikill gróði sé væntanlegur svo hann geti haldið staðnum fyrir sig og sína líka og gefur skít í hagsmuni þeirra sem þar búa.
Ég trúi að Tómas sé sannur læknir og láti mig ekki gjalda þessarar gagnrýni ef ég lendi einhverntíman undir hnífnum hans.
