SPILLING OG GETULEYSI HÆTTULEG BLANDA

  Persónur oe leikendur.

  Embættismaður skrifar:

  Svo virðist sem forsætisráðherra sé eitthvað að fatast flugið þrátt fyrir að hún sé hvorki lítill vængbrotinn fugl né ein á flugi. Hún hefur herskara embættismanna í kringum sig sem ættu að geta aðstoðað hana í erfiðum samskiptum við oflátunginn og að margra mati snillinginn Kára Stefánsson hjá Íslenskri erfðagreiningu. Eitthvað bregst liðinu bogalistin.

  Kári hefur nú komið ríkisstjórninni, ferðaþjónustunni og fleirum í uppnám með nýjasta útspilinu að hætta skimun á ferðamönnum á Keflavíkurflugvelli. Birtir Kári samskipti sín og forsætisráðherra sem hann ávarpar einfaldlega Katrín í bréfum á Vísi. Þar segir Kári m.a.:

  ,,Okkar skoðun er sú að öll framkoma þín og heilbrigðismálaráðherra gagnvart ÍE í þessu máli hafi markast af virðingarleysi fyrir okkur, framlagi okkar og því verkefni sem við höfum tekið að okkur í þessum faraldri. Þetta er einfaldlega okkar skoðun og það má vel vera að hún sé byggð á ofmati okkar á okkur sjálfum. Það væri svo sem ekki í fyrsta skiptið sem við ofmætum okkur. Þannig fer nefnilega hégómleiki manna gjarnan með þá en ég er alsekki að ætlast til þess að þú kannist við það.‘‘

  Sneiðin sem forstjóri ÍE sendir Katrínu fer ekki milli mála. Hann telur hana hafa ofmetnast.

  Það tók forsætisráðherra 3 daga að svara Kára þrátt fyrir allar silkihúfurnar sem hún hefur raðað í kringum sig í ráðuneytinu og á flokkspólitískum forsendum. Þar er til dæmis núna kominn hópur pólitískt ráðinna kvenna til að sjá um jafnréttismálin en feminstar margir hrista hausinn yfir linku Katrínar vegna nýlegs úrskurðar kærunefndar jafnréttismála vegna ráðningar Lilju Alfreðsdóttur í menntamálaráðuneytinu á pólitískum flokkshesti, Páli Magnússyni.

  Sú sem kærði Lilju menntamálaráðherra fyrir brot á jafnréttislögum og vann málið fyrir kærunefnd er m.a.s. skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu hjá Katrínu. Ekki fær hún aðstoð frá hinum öfluga hópi pólitískt ráðinna embættiskvenna sem sjá eiga um jafnréttismálin svo hugleikin henni Katrínu, að þær lyfti litla fingri til aðstoða samstarfskonu sína.

  Katrín umlar eitthvað um að Lilja menntamálaráðherra þurfi að koma með skýringu. En hvernig bregst menntaráðherrann í stjórn Katrínar við: Hún stefnir blessaðri konunni sem er skrifstofustjóri í ráðuneyti Katrínar í þeim tilgangi að fá úskurð kærunefndarinnar ógiltan sem kvað á um að Lilja ráðherra hefði brotið jafnréttislög.

  Katrín segir ekki orð enda getur hún ekkert sagt, sjálf uppvís að hafa skipað ráðuneytisstjóra með ólögmætum hætti fyrir nokkrum mánuðum. Það var þegar hún skipaði Bryndísi Hlöðversdóttur fyrrum þingkonu Samfylkingar ráðuneytisstjóra e sú hefur farið óslitna siguför um kerfið eftir að hún lét eftir sæti sitt á þingi fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrir einum og hálfum áratug. Fréttastofa hringbrautar kallar Bryndísi ,,dýran farandgrip vinstri manna“.

  Flokksbróðir Katrínar, forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, hafði nýverið tekið Rögnu Árnadóttur fram yfir Bryndísi þegar báðar sóttu sum starf skrifstofustjóra Alþingis. Einhvern veginn varð að bæta Bryndísi það upp en hún hafði þá gengt stöðu ríkissáttasemjara (en skipun hennar í það embætti fór verulega í taugarnar á Sjálfstæðismönnum fyrir u.þ.b. tveimur árum. Fjármálaráðherra mun hafa verið orðinn þreyttur á henni í því hlutverki.)

  Staða ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu var ekki auglýst þegar Bryndís Hlöðversdóttir var skipuð með vísan til heimildar í 36. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um að heimilt sé að færa til embættismenn innan stjórnarráðsins. Taldi ráðherra sig geta farið á svig við góða stjórnsýslu með vísan í það lagaákvæði sem á alls ekki við því Bryndís hafði aldrei gegnt stöðu innan stjórnarráðsins. Auk þess má spyrja af hverju ekki var auglýst til að fá þann hæfasta. Margir áhugasamir og án efa margir mun betur menntaðir og reynslumeiri en hún.

  Þessi skipun Bryndísar í stöðu ráðuneytisstjóra án undangenginnar auglýsingar um æðstu stöður í stjórnarráðinu er fullkomlega ólögleg í ljósi laga um stjórnarráðið sem sett voru í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur til að bæta ímynd stjórnsýslunnar í öllu spillingarfeninu.18. grein laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands segir að ráðherra skipi ráðuneytisstjóra að fengnu mati hæfnisnefndar. Það þýðir að auglýsa verður stöðuna.

  Ráðuneytisstjórar eru æðstu stjórnendur Stjórnarráðs Íslands, að ráðherrum sjálfum undanskildum, og því eðlilegt að samræmi sé viðhaft við skipanir þeirra m.a. til að tryggja enn frekar en nú er að ákvarðanir um skipan þeirra séu byggðar á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum.

  Ekki er vitað hvort Umboðsmaður Alþingis mun eiga frumkvæði að því að kanna þessa skipan eða hvort til hans hefur borist kvörtun. Spurning hvort þetta mál eigi ekki erindi inn borð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis?

  Auglýsing