SLÖKKVILIÐSKONA Á BULLANDI TÚR

  Áslaug - á vettvangi elds og reyks með samstarfskonu.

  “Þarna var ég búin að vera í slökkviliði í eitt ár og þessi eldur í Geymslum var fyrsti stóreldurinn sem ég fór í. Mín upplifun var samt aðeins öðruvísi en flestra þennan dag,” segir Áslaug Birna Bergsveinsdóttir slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður í hjúkrunarfræðinámi.

  “Ég mætti í útkallið um kl 9:30 um morguninn og fór strax í reykköfun, ég veit ekki hversu margar þær voru þennan daginn, ég missti fljótt töluna. En það sem gerðist líka um kl 9:30 var að ég byrjaði á massívum túr.

  Nýmætt á vettvang, ein af afar fáum konum en á þessum tíma vorum við fjórar starfandi á höfuðborgarsvæðinu. Ég vildi ekki vera stelpan með sérþarfir sem þurfti að kaupa sér túrtappa meðan strákarnir slökktu eldinn.

  Ég hélt því áfram að vinna meðan blóðið lak niður lærin. Ég endaði á að vera í þessu útkalli í 17 klst án þess að komast í almennilega pásu eða þurr föt (maður blotnar mikið í slökkvistarfi). Eftir miðnætti stóð ég í næturfrosti við dælubíl og stjórnaði dælunni, öll í blóði undir gallanum, sem var á þessum tíma frosinn utan á mér.

  Margir eru þeirrar skoðunar að slökkvistarf sé ekki fyrir konur. Ég veit hinsvegar um fátt jafn grjóthart og 22 ára kona, öll í túrblóði, svita og sóti að vinna nákvæmlega sömu vinnu og allir hinir.”

  Auglýsing