SKOTIÐ Á AFA BJARNA BEN Á ÞINGVÖLLUM

    Á tímum skothvella og aðsúgs að ráðamönnum rifjar Viðar Víkingsson kvikmyndaleikstjóri upp þessa sögu af afa sínum og Sveini Benediktssyni afa Bjarna Ben fjármálaráðherra:

    “Afi minn, Kristján Gíslason, og Sveinn Benediktsson, útgerðarmaður af Engeyjarætt, voru vinir. Afi rak vélsmiðju á Nýlendugötu þar sem Myndhöggvarafélagið er nú til húsa, og sá þá oft um viðgerðir á bátum Sveins. Einhverju sinni sátu þeir í bústað Sveins við Þingvallavatn og röbbuðu saman. Sveinn heyrði ekki eitthvað sem afi sagði, stóð upp, færði sig nær honum og sagði: Ha? – Í sama mund kvað við skothvellur og byssukúla reyndist í bakinu á stólnum sem Sveinn hafði nýstaðið upp úr. Þeir hlupu út til að athuga hvaðan kúlan hefði komið og fundu þá mann sem hafði verið að plaffa út í loftið á fylliríi og óvart, að sögn, skotið á bústaðinn. Sveinn spurði hann samt fyrstra orða: Ertu kommúnisti? – Þetta gerðist á sjötta áratugnum, Sveinn hafði þegar átt sín börn, svo ef kúlan hefði lent í honum, hefði það samt ekki breytt því hver er fjármálaráðherra í dag.”

    Auglýsing